30.10.19

Kennaraverkfall

Það kom að því að kennarar í Chicago færu í verkfall.  Þeirra kjör og starfsumhverfi hafa farið hnignandi í áratugi og ég styð þá heilshugar þó ég sakni þess heilmikið að börnin fari í skólann.  Það er ekki annað í stöðunni að taka stóísismann á þetta og njóta þess að leira og mála og fara út á róló.  Ég er eitthvað að reyna að vinna en ég er svo léleg að skrifa grein að það er ekkert smá.  Hú ha.

Við fórum í Halloween partý á sunnudaginn og vorum *lang* flottasta parið.  Ég hafði farið búða á milli að leita að allskonar dóti og endaði sem bilaðslega glæsileg góða nornin úr norðri.   Edda var Dórótea og Sólveig og Ásta voru ballerínur.  Ásta átti að vera pumpkin og ég var búin að kaupa geggjuð sæt pumpkin föt sem hún var algjör pumpkin í en barnið er ekki lengur viljalaus dúkka og því varð úr að hún fór í allskonar bleikt og var ballerínu prinsessa.

16.10.19

Fjölskyldan nýtur lífsins

Við erum heppin fjölskylda að vera öll við góða heilsu.  Af og til er maður minntur á að það er ekki sjálfgefið. Við erum þakklát fyrir það og njótum þess með því að taka þátt í því sem borgin hefur upp á að bjóða.  Um þessa helgi var fjölskyldudagur í nýlistasafninu, MCA, sem var stórkostlegt.  Við fórum í hermi-dans með dönsurum og Sólveig fékk að leiða hópinn.  Edda skrifaði gagnvirka sögu og þær bjuggu til litrík og formföst listaverk.  Síðan skoðuðum við allskonar framtíðarsýnir og nútíðarsýnir.  Æðislega skemmtilegt.



 

Í gær var frídagur í skólanum og Edda fór á fimleikanámskeið, Ásta í leikskólann en við Sólveig fórum niður í bæ í Art Institute.  Ég vildi endilega að við Sólveig gerðum þetta saman því við Edda fórum einmitt saman í svona ferð fyrir tvem árum. Meðan við biðum eftir því að safnið opnaði fórum við á kaffihús og spjölluðum við Spánverja sem komu hingað til að hlaupa í maraþoninu, löbbuðum í gegnum Millenium Park og spegluðum okkur í bauninni.  Á art institute sáum við vatnaliljurnar og heystakkana hans Monet, styttur af Búdda og vorum heillengi á fræðslusetrinu.  Eftir safnið hittum við pabba í hádegismat og fengum að kíkja á skrifstofuna til hans þar sem Óli galdraði fram tyggjó.  Það sló heldur betur í mark því þegar Edda spurði hana hvað hún hefði verið að gera allan daginn þá var svarið "við hittum pabba og ég fékk tyggjó!"




4.10.19

Frelsið er yndislegt

Mér finnst börnin mín svo yndisleg.

Á leiðinni í skólann, þegar við erum búnar að setja Eddu og Sólveigu í Pulaski, erum við Ásta að spjalla og hún segir "Mamma, í hvaða skóla er ég núna að fara?"  (Eins og hún sé ekki búin að fara í sama skóla í meira en hálfa ævina)  "Þú ert að fara í New Einstein elskan"  "Óóóhhh! Það er frábært, ég elska New Einstein".

Og Edda í þann mund sem hún sofnaði:  Mér þykir svo vænt um Sólveigu, hún er svo góð við mig, hún hjálpar mér í svo mörgu, hún hjálpar mér að læra, ég er svo þakklát fyrir að eiga Sólveigu í lífinu mínu.

Þessar litlu dúllur.

Stórfréttir dagsins koma úr fjölskyldu-heimsókn, mánaðarlegur viðburður í bekknum hjá Eddu, þar sem hún sýnir manni hvað hún er að gera í skólanum og hvernig allt gengur fyrir sig.  Allir áttu að skrifa heimildaritgerð um eitthvað hugðarefni og Edda valdi Ísland.  Hún er með fjóra kafla: landslag, eldjöll, veðurfar og vatn.  Allt góðir kaflar en veðurfars kaflinn bar af.  Hann byrjar bara rólega þar sem hún er að lýsa veðrinu: kalt á sumrin, kalt á veturna.  Síðan kemur (orðað eins og ég man það):
Árið 2019 var frábrugðið.  Veðurfar breyttist.  Hlýnun átti sér stað.  Koldíoxíð sem fólk gusar í andrúmsloftið hleypir varmanum ekki út og það verður heitara.
 Litla stýrið.  Og núna man ég að hún er búin að vera að spyrja mig útí þessi mál en ég hafði ekki áttað mig á því að hún væri að gera research fyrir grein sem hún var að skrifa.   Ég er svo stolt ég er að springa.

Annað er það í fréttum (já ég er byrjuð að lesa fréttir aftur - en meira meðvitað, aðeins á afmörkuðum tíma dags.)  Bandaríkin eru að detta á hliðina.  Mér finnst svo ótrúlegt að upplifa það hvernig lýðræðið getur svona molast í sundur.  Bandaríkin sem er fæðingastaður lýðræðis.. fyrir utan Ísland náttúrulega.  Öfgarnar eru orðnar svo miklar.  Ef maður hugsar um Obama og núverandi forseta.  Besti og versti.  Og þessi árás á sannleikann.   Það er svo ótrúlegt að þetta skuli í raun og veru vera að gerast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?