23.4.16

Litla Ásta

Er þannig sem Sólveig ávarpar Ástu.  Hún segir það svo sætt.  En barnið er orðið þriggja vikna og gott betur.  Hún er orðin meira athugul, horfir á mann, "segir" stundum eitthvað, eitthvað hjal.  Síðan er hún farin að sparka meira og hreyfa sig meira.  Systurnar eru jafn hugfangnar.  Bíbí er að dáta segir sú yngri þegar eitthvað heyrist í henni.  Síðan lesa þær fyrir hana og syngja.  Edda er búin að reyna að kenna henni sporin í dansinum sem hún er að læra.  Báðar vilja þær ólmar halda á henni.  Um leið og ég tek hana upp segir Sólveig "my turn" og sest bein í baki með útrétta handleggi.

Í dag var fyrsti dagurinn án aðstoðar.  Við lifðum þetta af.  Óli eldaði þrjár máltíðir.  Reyndar fúlsuðum við allar við hafragrautnum hans en hádegis og kvöldverðirnir voru mjög góðir.  Fiskisúpa, gratinerað hvítkál og pylsa.  Allir mjög ánægðir með þetta.  Sólveig vildi ekki lúra í hádeginu en sofnaði seinna í rólunni og stein svaf alla leiðina heim þó ég hafi rogaðist með hana á mjöðminni því ég var með Ástu á maganum.  Óli og Edda höfðu farið í verslunarleiðangur en nú erum við komin með plan til að panta af netinu mat því þriggja barna fjölskyldur bara ná ekki að kaupa sjálfar í matinn.

14.4.16

Ásta Guðrún tveggja vikna

Elsku litla krílið er tveggja vikna.  Mér finnst eiginlega ótrúlegt að fólk geti verið svona lítið og ósjálfbjarga.  Þetta er svo absúrd ástand á manneskju að maður getur ekki munað hvernig það er að annast svona kríli þegar þessu skeiði er lokið.  Hún getur rétt svo snúið höfðinu og hún getur auðveldlega orgað.  En þar endar þessi listi um það sem hún getur gert.  Sem foreldri er maður "með lífið í lúkunum" eins og máltækið segir.  Þessi litla vera reiðir sig á mann til að halda sér á lífi.

Það er algjörlega yfirþyrmandi að eignast barn.  Það að geta ákveðið að búa til nýja manneskju er ótrúlegt í sjálfu sér.  Varla neitt á þessari plánetu er jafn fullkomið og einstakt og manneskjur og fólk bara býr til nýja manneskju alveg áreynslulaust, þannig séð.  Síðan er maður með þennan litla hnoðra í fanginu, eða á bringunni eins og ég núna, algjörlega ósjálfbjarga og maður þarf að passa að hann vaxi og dafni.  Þegar ég lít aðeins aftur í tímann þá sé ég að mér hefur liðið svona áður.  Síðast en ekki síst þarf að koma barninu "til manns".  Hú ha.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?