28.12.15
Mexíkó og fleira
Á heimleiðinni seinkaði vélinni okkar svo við komumst ekki til Dallas fyrr en 4 klukkutímum eftir áætlum og þá var seinasta vélin til Chicago flogin. Gæjinn ætlaði að senda okkur með fyrstu vélinni áfram en við fengum hann til að bóka okkur aðeins seinna. Við gistum því bara á flugvellinum og leigðum bíl daginn eftir og skoðuðum okkur aðeins um í Texas. Fyrsta skipti fyrir okkur öll. Við fórum á sædýrasafnið og sáum meðal annars letidýr sem fór sér mjög hægt. Edda sá sækýr sem hún er búin að óska sér að hitta síðan í sumar þegar hún lærði að hafmeyjur voru áður sækýr. Ég held hún hafi ekki áttað sig á stærðina á þessum dýrum, en þær eru mjög stórar. Þessi sem við sáum átti uppáhaldsspýtu sem hann lék sér að. Síðan sáum við eðlur og sæhesta, anacondu, skötur, mörgæsir, allskonar fiska, flamingó fugla. Þetta var svaka flott sædýrasafn en ég fékk það ekki á tilfinninguna að velferð dýranna væri í fyrsta sæti, búrin voru frekar lítil. Börnin voru uppgefin og sváfu í 3 tíma. Á meðan vorum við í 3 tíma bíltúr. Sem betur fer er Dallas bílvæn borg. Við fengum okkur tex mex í hádegismat með horchata sem kom í svona 2L Texas dunkum. Loks komumst við heim sem var alveg ágætt. Við vorum öll alveg búin á því. Sólveig fór í skólann daginn eftir en Edda var heima því hún var hálf lasin og við mæðgur sváfum meira og minna allan daginn.
Sandra beið eftir okkur heima með tilbúin mat og huggulegheit. Hún var að stússast í kringum okkur öll jólin sem var agalega indælt sérstaklega vegna þess að við hjónin fengum bæði einhverja pest sem er að ganga um alla Chicago. Hálsbólga og hósti. Og erum búin að vera alveg draugslöpp. En jólin voru mjög indæl. Við elduðum gæs með öllu þessu hefðbundna: rauðkál, brúnaðar kartöflur, vínberja-sellerí mix, gular og grænar og trönuberjasultu. Í forrétt var humarsúpa sem ég keypti bara tilbúna og í desert var ís og sósa og smákökur. Mjög glæsilegt. Börnin voru of spennt til að smakka aðalréttinn og Edda er orðin nógu gömul (rétt að verða 4) til að geta opnað alla pakkana áður en hún fer að sofa og beðið um fleiri. Fyrir tvem árum þá opnaði ég síðustu pakkana hennar á öðrum ef ekki þriðja í jólum því hún var bara búin að fá sig full sadda af þessu. Og Edda fékk líka að opna síðustu pakkana hennar Sólveigar á jóladagsmorgun með leyfi.
Mamman: Nei! Leyfðu Sólveigu að opna sinn pakka.
Edda: Sólveig, viltu opna þinn pakka?
Sólveig: Nei.
Edda: Má ég opna þinn pakka?
Sólveig: Jah.
Yeþþ er búið að þróast yfir í jah.
8.12.15
Framlenging
Ég er með deadline og ég fékk extension. Í þriðja sinn. Það er fyrir bestu. Þó það sé gott að ljúka einhverju og skila þá er hrikalegt að skila einhverju ókláruðu sem maður veit að hefði geta orðið betra.
3.12.15
Dagur 5
Í gær fóru allir í leikskóla og "vinnuna" sína. Það var ágætt. Í dag vaknaði Sólveig kl. 4 og var rennandi blaut. Þegar ég var búin að skipta á henni og skipta um föt þá var hún bara vöknuð og við urðum að fara á efri hæðina til að leyfa Eddu að sofa. Ætli hún hafi ekki sofnað aftur um sex eða hálf sjö og svo vaknaði Edda kl. 7. Eftir hafragraut grúfði ég mig bara undir sængina og gat ekki staðið upp fyrr en kl. 10. Nokkuð fáránlegt. En síðan rættist aðeins úr þessu. Við fengum okkur hádegismat og Sólveig lúraði 10-12 sem var ágætt. Núna erum við á kaffihúsi sem er leiköfngum gætt og hér er einnig sandkassi með rennibraut, allskonar dúkkudót og ég veit ekki hvað og hvað. Sannkallað ævintýraland.
1.12.15
Dagur 3 í stelpupartý
Óli er í London og okkur finnst það mjög leiðinlegt. Hann fór af stað í bítið á sunnudaginn og við réðumst í að setja upp svolítið jólaskraut. Síðan kom Ruth barnapían okkar og lék við stelpurnar og ég lagði mig. Þegar hún fór lagði Sólveig sig og þegar hún vaknaði drifum við okkur bara í ikea. Það mætti segja það vera óðs manns æði því við Óli höfum tvisvar farið með þær í ikea og það hefur alltaf verið frekar erfitt. Núna langaði mig bara svo í tvær hirslur til að geyma allskonar dót sem flýtur um íbúðina að ég bara brunaði af stað. Edda var líka alveg uppgefin svo hún sofnaði strax og svaf í 40 mín sem veit á gott. Sólveig var aðeins minna hrifin af þessu uppátæki en hún er búin að læra að sætta sig við það sem lífið býður henni hverju sinni. Við byrjuðum heimsóknina á því að fá okkur lax og quinoa bollur og einhverja sænska möndlutertu í desert sem við hefðum betur sleppt en allt í allt var það góð byrjun. Síðan enduðum við á pizzu og ís og allir sáttir. Ég keyrði líka bílakerruna og flötu pakkakerruna samtímis eins og ekkert væri.
Dagur nr. 2 (í gær) gekk ljómandi vel þar sem þær systur eyddu honum á leikskólanum. Edda var reyndar alveg úrvinda og sprakk næstum í loft upp þegar við vorum að hátta en sofnaði vel fyrir átta sem var notalegt.
Í dag bökuðum við piparkökur. Vorum búnar að því kl. 10. Nú er ég búin að læra af Söru að það er ekkert að því að byrja að vinna í eldhúsinu fyrir kl. 8. Síðan skrúfuðum við saman eina ikea hilluna. Sólveig fór að sofa og við Edda fórum í tölvurnar. Hún að horfa á Diego og ég að tékka á keyrslunum mínum og spjalla í skype. Þegar Sólveig vaknaði rúlluðum við út flenni mottu sem við keyptum í ikea og barnið gerði sér lítið fyrir, meðan ég var enn að rúlla, settist á mitt teppið og pissaði á það. Meðan ég var enn að rúlla. Það var í rauninni ekki búið að vera á gólfinu í eina mínútu. Ég fékk smá bakþanka með að hafa keypt hvítt teppi. Svo við fórum bara út á róló og út í búð að kaupa mjólk og þá var þessi dagur um það bil búinn.
Allt í allt hefur þetta gengið stórslysalaust fyrir sig. Á morgun fara elskurnar aftur í skólann og ég á tíma hjá ljósunni. 5 mánuðir komnir. Þessi meðganga gengur bara frekar vel. Litla krílið sparkar og fer í kollhnísa þegar ég leggst niður að slaka á bara svona til að minna mig á að það er þarna líka.
Dagur nr. 2 (í gær) gekk ljómandi vel þar sem þær systur eyddu honum á leikskólanum. Edda var reyndar alveg úrvinda og sprakk næstum í loft upp þegar við vorum að hátta en sofnaði vel fyrir átta sem var notalegt.