1.12.15

Dagur 3 í stelpupartý

Óli er í London og okkur finnst það mjög leiðinlegt.  Hann fór af stað í bítið á sunnudaginn og við réðumst í að setja upp svolítið jólaskraut.  Síðan kom Ruth barnapían okkar og lék við stelpurnar og ég lagði mig.  Þegar hún fór lagði Sólveig sig og þegar hún vaknaði drifum við okkur bara í ikea.  Það mætti segja það vera óðs manns æði því við Óli höfum tvisvar farið með þær í ikea og það hefur alltaf verið frekar erfitt.  Núna langaði mig bara svo í tvær hirslur til að geyma allskonar dót sem flýtur um íbúðina að ég bara brunaði af stað.  Edda var líka alveg uppgefin svo hún sofnaði strax og svaf í 40 mín sem veit á gott.  Sólveig var aðeins minna hrifin af þessu uppátæki en hún er búin að læra að sætta sig við það sem lífið býður henni hverju sinni.  Við byrjuðum heimsóknina á því að fá okkur lax og quinoa bollur og einhverja sænska möndlutertu í desert sem við hefðum betur sleppt en allt í allt var það góð byrjun.  Síðan enduðum við á pizzu og ís og allir sáttir.  Ég keyrði líka bílakerruna og flötu pakkakerruna samtímis eins og ekkert væri.

Dagur nr. 2 (í gær) gekk ljómandi vel þar sem þær systur eyddu honum á leikskólanum.  Edda var reyndar alveg úrvinda og sprakk næstum í loft upp þegar við vorum að hátta en sofnaði vel fyrir átta sem var notalegt.


Í dag bökuðum við piparkökur.  Vorum búnar að því kl. 10.  Nú er ég búin að læra af Söru að það er ekkert að því að byrja að vinna í eldhúsinu fyrir kl. 8.  Síðan skrúfuðum við saman eina ikea hilluna.  Sólveig fór að sofa og við Edda fórum í tölvurnar.  Hún að horfa á Diego og ég að tékka á keyrslunum mínum og spjalla í skype.  Þegar Sólveig vaknaði rúlluðum við út flenni mottu sem við keyptum í ikea og barnið gerði sér lítið fyrir, meðan ég var enn að rúlla, settist á mitt teppið og pissaði á það.  Meðan ég var enn að rúlla.  Það var í rauninni ekki búið að vera á gólfinu í eina mínútu.  Ég fékk smá bakþanka með að hafa keypt hvítt teppi.  Svo við fórum bara út á róló og út í búð að kaupa mjólk og þá var þessi dagur um það bil búinn.


Allt í allt hefur þetta gengið stórslysalaust fyrir sig.  Á morgun fara elskurnar aftur í skólann og ég á tíma hjá ljósunni.  5 mánuðir komnir.  Þessi meðganga gengur bara frekar vel.  Litla krílið sparkar og fer í kollhnísa þegar ég leggst niður að slaka á bara svona til að minna mig á að það er þarna líka.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?