11.9.15

Flutt til Chicago 2.0

Þá erum við komin til Chicago og það er bara yndislegt.  Ég elska þessa borg.  Mér líður ekkert smá vel að vera hér.  Stelpurnar eru byrjaðar á leikskóla og bara nokkuð ánægðar með það.  Sólveig volar reyndar svolítið mikið og er búin að taka ástfóstri á allskonar böngsum sem hún hefur ekki litið við til þessa en fer með þá með sér og er með þá í fanginu allan tíman.  Edda unir sér svaka vel.

Við erum að reyna að koma okkur fyrir í íbúðinni.  Fórum í heljarinnar ferð í IKEA um helgina og keyptum tvo bílfarma.  Hillur og borð.  Og teppi.  Fyrir nágrannana.  Það er engin leið að fá börnin okkar til að sitja í innkaupa kerru í meira en 15 mínútur.  Ekki séns í þessa klukkutíma sem maður þarf í IKEA.  Þrátt fyrir að hafa sofið í bílnum í 2 tíma þá voru þær eins og milljón manns og við eins og hauslausir kjúkklingar að elta þær.  Þangað til við föttuðum að setja Eddu í smaland.  Það var pínu breik.

Flugferðin gekk ekkert illa.  Sólveig kastaði reyndar upp yfir okkur Eddu í lendingunni í seinni vélinni og við fengum að bíða á flugbrautinni í hálftíma til að ég gæti þurrkað allt upp.  En síðan hittum við pabba og þá varð allt betra.   Þær voru báðar svo ánægðar að sjá hann það var ekkert smá.  Sólveig mátti ekki líta af honum.  Óli fór að sækja kerru og Edda fór með honum en ég hélt á Sólveigu og það fannst henni bilað ósanngjarnt.  Þegar hann fór að sækja barnastólinn þá hljóp hún á eftir honum, ætlaði sko ekki að missa hann aftur í heilan mánuð.  Annars voru þær bara nokkuð ánægðar í flugleiðavélinni.  Edda horfði á sjónvarpið alla leiðina, hæst ánægð með það og Sólveig dundaði sér við allt mögulegt, sér í lagi við að vinka nágrönnunum og leika týndur - gjúgg við þá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?