12.11.13

Hefði átt að læra smíði!

Edda hjálpaði mér að smíða borðið aftur saman.  Við notuðum borvél og það var sko ekkert mál.  Ég er svo montin með mig það er ekkert smá.  Edda var líka ánægð með árangurinn.


Það var Drífa sem kom okkur á bragðið.  Sagði við ættum bara að setja vinkil á þetta.  Og það gerðum við.  Eins og sést á meðfylgjandi mynd.  Er þetta ekki glæsilegt?!


Mér finnst ekki leiðinlegt að bæta smá yfirlýsingu í þennan mont póst.  En barnið, tæplega tveggja ára, er hætt með bleyju, hætt að pissa í sig svona mestmegnis, og pissar varla neitt í bleyjuna á nóttunni heldur.  Hú ha.  Mæli með ráðgjafanum mínum henni Jamie.  Sé ekki eftir þessum fimmtán dölum.  Hún segir einmitt að 20 til 30 mánaða gömlum börnum sé auðveldast að kenna að hætta með bleyju og því fyrr því auðveldar.  Eftir 30 mánuði er víst algjör martröð.  Ég verð að segja að þetta var ekkert mál hjá okkur.  Það var svona vika sem ég var svolítið á nálum en núna pissar hún 0-1 sinnum á dag í buxurnar.  Þvílíkur lúxus.  Hún er líka agalega sátt að vera laus við þetta stand.

Húsgögn

Ég seldi stólana okkar fyrir nokkrum vikum.  Við erum alltaf á leiðinni að kaupa nýja.  Okkur finnst frekar erfitt að finna góða stóla.  Jæja.  Síðan gerðist það í gær að Edda ýtti við eldhúsborðinu okkar og það fór ekki betur en svo en það bara liðaðist í sundur.  Það var víst aðeins brotið fyrir og þetta gerði útslagið.  Svo nú eru hvorki stólar né borð.

Í gær borðuðum við sitjandi á stólunum hennar Eddu við dótaskápinn hennar.  Það eru meira að segja vitni.  Drífa og Þórdís sátu í hægindastólunum (sem betur fer náði ég ekki að selja þá áður en þær komu), sötruðu öl og skemmtu sér yfir þessum farsa.

Hérna er sökudólgurinn og rústirnar.


Verkefnið okkar Eddu í dag er að kaupa vinkla og trélím og reyna að tjasla þessu saman.  Ef tími gefst til síðan reyna að selja þetta borð.  Það passar hvort sem er ekki inn í fínu íbúðina okkar.

8.11.13

Nýjasta snilldin

Í kjölfar New York Times greinarinnar sem fór eins og eldur í sinu milli Manhattanbúa höfum við uppgötvað nýja heimsmynd.  Það er kannski ofsögum sagt.  Nýja vídd í lífið.  Þetta er frekar stórkostlegt.

Í dag fengum við tvo vikadrengi.  Fyrst kom sjúkraflutninganemi hingað og setti saman öll ikea húsgögnin sem Óli og Edda keyptu um helgina.  Hann stóð sig ekkert smá vel.  Hvergi rispa eða skráma og allar skrúfur vel hertar.  Síðan kom maður á bíl sem bar 15 bókakassa útí bíl og keyrði með okkur Eddu í geymsluna, setti allt dótið á bretti sem hann rúllaði í geymsluna og raðaði öllu dótinu inn í hana og keyrði okkur heim aftur.

Því-lík snilld.  Og fyrir þetta borguðum við samtals um 10.000 krónur.  Þessir menn voru hvor um sig mestu gæðablóð.  Svo indælir, kurteisir og hjálplegir.  Sá sem hjálpaði mér með kassana býr í íbúð á Manhattan og á hús upstate, rafmagnsbíl og hvaðeina.  Hann er ekkert á kúpunni.  Hefur bara gaman að því að hjálpa öðru fólki, komast útúr húsi og kynnast nágrönnum sínum.  Við áttum margt sameiginlegt og gátum spjallað um hlýnun jarðar og skíði og barneignir alla leiðina.  Núna spyrjum við Óli okkur hvað getum við fengið vikadreng til að gera fyrir okkur næst?

1.11.13

Fiðrildi

Edda á leiðinni í halloween partý og að kveðja pabba sinn.



Halloween partý!!  Forréttur: bláber og jarðaber



This page is powered by Blogger. Isn't yours?