3.4.13

Tungumálið

Um daginn benti frænka mín mér á nýjustu þróun í íslenskri tungu.  Hún er sú að segja allar sagnir í nafnhætti.  Þetta er sennilega ekki nýjasta nýtt fyrir þá sem geta lesið þessi orð en ég hafði ekki tekið eftir þessu fyrr.  Núna hinsvegar heyri ég alla tala svona og fólk skrifar svona líka.  Virðulegt fólk sem hefur hingað til talað rétt og fallega.

Við hjónin erum í átaki að reyna að sporna við þessum talhætti hjá okkur.  Ég myndi segja að Óli er ívið lélegri en ég hvað þetta varðar svo ég fæ að leiðrétta hann í tíma og ótíma sem mér leiðist alls ekki. Hann er svona tiltölulega að bilast á mér.  Í staðin leiðréttir hann mig þegar ég nota ekki rétt fall.  Þetta er agalega skemmtilegt.

Við Edda fórum í ferðalag austur og síðan suður í morgun.  Við tókum cross-town strætóinn á austurhliðina og skiptum skóm í strite rite - fengum voða fína sandala í staðin fyrir vetraskó.  Síðan fórum við strax í sex-lestina suður á Spring Street í Housing Works á Story Time.  Þær eru tvær svaka skemmtilegar stelpur sem syngja og segja sögur þar á miðvikudagsmorgnum.  Það er svo sannarlega ferðalagsins virði.  Amy syngur lög svipuð og Raffi og Jo les um litlu lirfuna og fleiri sniðug fyrirbæri.  Sérstaklega gert fyrir 0-3 ára.  Edda skilur ekki mikið í sögunum en henni finnst skemmtilegt að vera með hinum börnunum og syngja og klappa saman lófunum.  Eftir sögustund ætlaði Edda að fá nýja bleiju.. nema hvað mamman hafði gleymt hreinni bleiju svo barnið var bara commando í buxunum sínum á leiðinni heim og pissaði í skóna áður en við komumst á leiðarenda.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?