21.11.12

Lestur í nóvember

Loksins loksins kláraði ég bók síðan Edda fæddist.  Rigning í nóvember sem ég fékk í afmælisgjöf (4. ágúst).

Mér fannst hún alveg ágæt.  Það var gaman að klára hana því endirinn var besti hlutinn.  Þetta er ekki ein af uppáhalds bókunum mínum og ég myndi ekki mæla með henni sérstaklega en hún er voða ljúf.  Hún fjallar um konu sem er svolítið á auto-pilot.  Hún virðist aðalega bregðast við því sem lífið býður henni upp á frekar en að ákveða að gera hluti sjálf.  Maður er kannski þannig sjálfur að vissu marki líka.  Það er bara aðeins óþægileg tilfinning að lesa um það svona svart á hvítu hjá söguhetjunni.  Reyndar í lokin tók hún mjög góða ákvörðun.  Það var léttir.

Ég er strax byrjuð á nýrri bók.  Leit aðeins í Jarð næði í ferðalaginu (við fórum til Boston um helgina) en ég veit ekki hvort ég held áfram með hana.  Byrjunin er ekki til að sannfæra mann.  Ég sé til.

Mér finnst svo skrýtið að barnið mitt skuli heita Edda.  Alla mína ævi vissi ég ekki að barnið mitt myndi heita Edda.  Þetta er svaka surprise.  Ekki það að ég sé eitthvað ósátt.  Ég valdi meira að segja þetta nafn.  Við Óli völdum það bæði.  Í sitthvoru lagi.  Ég hélt alltaf að ef ég eignaðist stelpu myndi hún heita Heiða.  Eða Sunna. Svona er lífið.  Alltaf að koma manni á óvart.

11.11.12

Hvaða barn er nú þetta?



Já það er rétt. Litla Edda klifurmús. En hún var rétt í þessu að finna leið upp á tölvuborðið hans Óla.




10.11.12

Guði sé lof

Það tók aðeins orfáa tíma að komast að niðurstöðu um endurkjör forsetans. Ég verð að viðurkenna að ég upplifi smá spennufall. Undanfarnar vikur og mánuði er ég búin að fylgjast grannt með baráttunni og skoðanakönnununum. Hvað a eg núna að lesa um í New York Times?

Það eru líka frettir héðan frá okkur. Ég er búin að ráða barnfóstru fyrir barnið. Hún kom tvisvar í síðustu viku og Eddu leist bara vel á hana. Fyrri daginn vorum við allar þrjár saman að leika en seinni daginn fóru Edda og Cris saman á róló. Það var vist bara gaman en um leið og Edda sá mig aftur fór hún að háskæla. Litla skinnið.

3.11.12

Edda 9 mánaða

Húðin hennar er mjúk eins og silki.  Hún er rétt komin með smá hár en úr fjarlægð virkar hún sköllótt.  Hárliturinn hennar er ljós kastaníu brúnn.  Augun eru blá og full tilhlökkunar um hvað muni gerast næst.  Litli kroppurinn hennar er stæltur og hún skríður áfram á fullu spítti, klifrar upp þrep og hangir í brúnum og hverju sem hún getur náð taki á.  Hún er nýbúin að taka ástfóstri við lítið tuskudýr og tekur hann með sér í ferðalög yfir gólfið.  Ef hún þarf að nota hendurnar í eitthvað flókið stingur hún snoppu bangsans upp í sig og heldur á honum eins og hundur.  Um daginn sýndi hún pabba sínum þennan nýfengna vin og bauð honum að smakka á annari loppunni en það er víst mjög notalegt að sjúga hana.  Yfirleitt þegar við förum út að ganga er hún í magapoka framan á mér.  Undanfarið hefur hún verið að reigja sig til að horfa meira fram því hún sér annars bara til hliðanna.  Þá snýr hún annað hvort upp á allan líkamann eða teygir höfuðið aftur á bak eins langt og hún nær og horfir afturfyrir sig á hvolfi.  Þetta virðist ekki ýkja þægilegt.  Síðast þegar við fórum út leyfði ég henni að sitja í kerru.  Það var hún ánægð með og söng meira og minna alla leiðina.   Aaaaaaaaaaaa.  En það er eini stafurinn sem hún kann.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?