19.2.12

Eddu bragur


Í móðurkvið hún vildi lúra
Í mjaðmagrind var gott að kúra
En loks gólaði mamman "hvað er 'etta?"

Á milli beina sat ljúfan föst
Og Georgia sagði að lokum höst
Þessu verður Dr. Blank að redda

It´s a girl! Hún er frábær!
Myndarleg er okkar mær
Vær og heimkær í sínum bedda

Framtíðin er óskrifað blað
Foreldrana gat ei grunað
Þrautinni þyngri þig var að sedda

Heilbrigt kríli sem vex og dafnar
Hvers meira getur maður óskað sér?
Við hlökkum til að vera með þér
Okkar elsku pínulita Edda

18.2.12

Komin heim



Barnið er orðið vikugamalt og vel það. Hún dafnar bara vel en vá hvað það er intense að vera með svona nýfætt kríli. Það tók alveg viku fyrir mjólkina að koma almennilega í brjóstin. Þangað til fékk hún bara þessa fáu dropa af broddmjólk og varð fyrir vikið svolítið þurr. Ljósan kom hingað í akút heimsókn og sýndi okkur hvernig við ættum að koma ofaní hana formúlu á tveggja tíma fresti. Mér fannst svaka erfitt að geta ekki fætt barnið mitt almennilega og Óli er með áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu. En þannig er kannski að vera foreldri.

Litla músin drekkur núna mjólk þangað til hún gubbast uppúr henni og virðist hafa það ágætt. Við heimsóttum barnalækninn í gær án þess að vera með spjaldið hennar, klúta til að þurrka henni um rassinn og teppi, en þetta eru víst allt hlutir sem gert er ráð fyrir að fólk fatti að koma með til barnalæknisins. Svo við þurftum að fá lánaða klúta og vefja barninu inní peysuna hans Óla. Svolítið pínlegt. En góðu fréttirnar eru að hún hefur þyngst um 85 grömm eða 3 únsur eftir að við fórum af sjúkrahúsinu. Við Óli tókum smá stríðsdans þegar við föttuðum það. En á sjúkrahúsinu léttist hún um tæpt pund og síðan örugglega annað eins eftir að við komum heim.

Óli er í tveggja vikna fæðingaorlofi eins og er. Það er alveg ómetanlegt. Fyrir okkur báðar. Hér er alltaf allskonar gott í matinn. Meira að segja heimagert spagetti á fimmtudaginn. Áferð og bragð alveg fyrirtak. Þá á hann viku eftir sem við erum að hugsa að taka kannski í apríl. Mig langar svo í vorferð by the sea, kannski til suður Karolínu. Sé okkur fyrir mér liggjandi á sólbekk í skeljasandi undir sólhlíf. 24 stiga hiti og léttskýjað. Ha ha, hvern dreymir ekki um það! Sjáum til hvað setur.

Takk fyrir allar góðu kveðjurnar. Mér finnst alveg yndislegt að heyra frá ykkur þó svo ég sé í vandræðum með að finna tíma til að svara. Ástarkveðjur frá New York, Tinna

10.2.12

Stúlka fædd

Dóttir mín leit dagsins ljós rétt eftir miðnætti á fimmtudaginn. Eftir að reyna í 8 tíma að klára loka skrefið í fæðingunni, og ýta barninu út, var ljóst að eitthvað stóð í vegi fyrir því og það myndi ekki komast út eins og náttúran gerir ráð fyrir. Tvisvar sinnum hafði herbergið fyllst af fólki, ljósmóðirin skipað mér á fjórar fætur meðan hún tuskaði bumbuna til til að fá krílið aftur í gott jafnvægi og Óli horft stjarfur á hjarta línuritið fara aftur upp. Það yrði að hjálpa barninu út.

Það jafnast ekkert á við að heyra barnið manns sem er búið að dansa inní manni undanfarið ár draga fyrsta andadráttinn og öskra af ōskra af öllum lífs og sálar kröftum. Jafnvel, eða sérstaklega, þegar maður liggur á skurðbretti, kviðreistur með blátt tjald fyrir framan sig til að hlífa manni frá martröðum til æviloka. Barnið var hraust og Óli gat farið strax til hennar og fullvissað hana um að það væru ekki barnaræningjar sem höfðuð gómað hana. Ljósan okkar var svaka imponeruð yfir því hvað hann hélt örugglega á varnarskildi yfir henni og passað að hún hlyti eins lítinn tilfinningalegan skaða á að koma í heiminn og mögulegt er. Um það snerist allur undirbúningurinn og fæðinganámskeiðið og Óli fékk A+.

Þegar búið var að sauma mig saman fékk ég að halda á litlu músinni minni sem fór strax að sjúga brjóstið af mikilli áfergju. Núna liggur hún við hlið mér steinsofandi. Yndislegra getur lífið varla verið.

3.2.12

Kemur með kalda vatninu

Ég hugsa að það sé satt að við Óli erum hvorugt fólk sem er mikið að flýta okkur. Fyrr en á síðustu stundu. Við tökum flestu með mikilli ró. Besta dæmið er sennilega hvað við vorum lengi í skóla. Ef við ætlum í frí eða að gera eitthvað spes þá spjöllum við kannski um það í fimm mánuði og kaupum síðan flugmiðann tvem dögum fyrir brottför. Þegar Óli flutti til Frakklands hélt ég að hann myndi ekki flytja því daginn áður en hann átti að fara var hann ekki búinn að gera neitt af því sem hann þurfti að gera. Síðan fór allur dagurinn í mega kapphlaup milli ríkisstofnana að biðja fólk um undanþágur fyrir að gera eitthvað svona seint og mér til smá undrunar reddaðist allt og hann fór. Tengdafjölskyldan mín er líka svona. Þegar maður fer með þeim í leikhús eru allir að dunda eitthvað þangað til fimm mínútur í átta, þá er the batmobile tekinn fram og flogið niður í bæ.

Hmm. Ég byrjaði þennan póst haldandi að við Óli værum bæði svolitlir silakeppir og það væri bara í genunum.. en núna er ég að hugsa að þetta sé Óla megin og ég hafi bara smitast. Hmm. Svo nú veit ég hverjum það er að kenna að dóttir mín kúrir ennþá makindalega í maganum á mér, 10 dögum eftir að leigutíminn rann út. Óla. Þá er það allavegana útskýrt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?