25.6.07

Kísildýr

Ég er að skrifa ritgerð og það gekk svaka vel þangað til ég fékk algjörlega leið á því að skrifa þessa ritgerð. Þannig var það að ég skilaði henni til kennarans. Hún sagði "bíddu ég hélt að þú ætlaðir að skrifa meira paleo spliff, auk líkana spliffsins". "Jamm, kannski, en síðan var líkanavinnan svo skemmtileg að ég gleymdi mér bara í henni" sagði ég. (Ég var komin með umbeðinn síðufjölda!) Og getiði hvað hún sagði þá? "Jahh, ef þú lofar að bæta við auka kafla um paleoproxies og þannig, þá skal ég senda inn einkunn með það í huga, og síðan sendir þú mér inn ritgerðina með aukakaflanum."

Þannig atvikaðist það að ég er núna að skrifa paleo kafla. Og fyrst ég þarf að ganga í gegnum það að skrifa ritgerð á miðju sumri í 26 stiga hita á Manhattan. Jah, þá verðið þið að lesa um hvað ég er að skrifa. Nema þið slökkvið á mér. Og ég myndi reyndar skilja það en. Þetta er frekar áhugavert og ég er að fara að útskýra málið á svaka einfaldan hátt.

Sagan gerist í sjónum í kring um suðurskautslandið. Þessi sjór er spes að því leyti að sjór frá miklu dýpi kemur upp á yfirborðið. Það er ekki það mikil lárétt blöndun í heimsins höfum. Sjór er yfirleitt á því dýpi sem hann er. En á nokkrum stöðum í heiminum færist sjór upp eða niður. Sjór á miklu dýpi er fullur af næringarefnum því ekkert lifir þar sem myndi nota þessi næringarefni. Þannig að þar sem sjór kemur frá miklu dýpi upp á yfirborðið er svaka gott að lifa, svif hafa nóg af næringarefnum og í kring um suðurskautslandið eru sérstakar líffverur sem eru spenntar fyrir einni tegund næringaefna. Kísli.

Á ísöld var miklu kaldara á pólunum heldur en er í dag en hitastig á miðbaug var ekki mjög ósvipað, að talið er. Það var kaldara en ekki jafn mikið kaldara eins og á pólunum. Þar af leiðandi var sennilega meira rok. Þetta telja menn vera málið því í íslögum á suðurskautslandinu frá síðustu ísöld er heilmikið af fínum sandi sem hefur borist með vindi sennilega frá Patagóníu (Suður Suður-Ameríku). Í sandi er járn. Og járn er svaka mikilvægt steinefni fyrir lífverur. T.d. fyrir fólk en líka diatom. Diatom eru svif sem mynda skeljar úr kísilsýru, H4SiO4. En þær þurfa líka nitur (NO3-) og járn. Í sjónum kringum suðurskautslandið er svaka mikið af H4SiO4 svo það er ekki vandamál, vandamálið er yfirleitt járn. Í dag hafa þessar lífverur það takmarkaðan aðgang að járni að þær verða að taka inn 4 mólekúl af H4SiO4 fyrir hvert mólekúl af NO3 sem þær taka inn. Á síðustu ísöld þegar nóg var af járni þá tóku þær inn 1 H4SiO4 fyrir hvert NO3.

Vísindamenn hafa skoðað allskonar sönnunargögn í sambandi við þessar spekulasjónir. T.d. hafa nokkrir skoðað Si ísótópur. Si er aðallega með 14 nifteindir; það er alltaf með 14 rafeindir og því er það hamingjusamast þegar það er líka með 14 nifteindir. En, smá hluti af öllum Si atómunum er með 16 nifteindir. Það skiptir eingu fyrir diatomin hversu margar nifteindirnar eru þannig séð en eins og er algengt með lifverur þá velja þær frekar léttari sameindina. Og það fer eftir því hversu mikið framboð af djúsi er hversu miklar skoðanir á þessu þær hafa. Þeas. ef sjórinn er yfirfullur af H4SiO4 þá velja allar léttari sameindirnar, en, ef það eru svo margar lífverur að þær þurfa að keppast um djúsið, þá er þeim alveg sama þannig séð og taka bara það sem býðst. Þannig að maður getur skoðað hversu mikið er af þungu sameindunum til að komast að því hversu vel það H4SiO4 sem var í sjónum á þessum tíma var nýtt. Á vísindamáli heitir þetta að Si-30 sé proxí fyrir nýtni á Si. (30 = 14 rafeindir + 16 nifteindir).

Síðan eru allskonar fleiri sönnunargögn. Það má mæla úraníum í setlögum til að komast að því hversu mikið af dauðu svifi féll á hafsbotn. Það má mæla hlutfallið af prótaktiníum og þóríum til að komast að því hversu mikið dót var að rigna niður frá yfirborðinu niður á hafsbotn. Menn eru búnir að komast að því hvernig nota má hvert smáatriði til að púsla saman mynd úr fortíðinni. Mér finnst það alveg ótrúlegt. Og þó svo ég geti skrifað þetta svona í einni setningu, þá er þetta ævivinna margra manna.

Allavegana. Áfram með söguna. Í síðustu ísöld var nóg af járni, lífverur þurftu ekki jafn mikinn kýsil. Það virðist ekki vera að fleiri lífverur urðu til þá þó svo að járnið hafi verið til staðar. Hvað varð um alla þessa kísilsýru? Getur verið að hún hafi sloppið útí nærliggjandi höf? Og hvaða áhrif myndi það hafa?

En það er einmitt það sem ritgerðin mín fjallar um. Smá líkanaúttekt á því hvaða áhrif það myndi hafa. Kaflinn sem ég er að skrifa núna er um það hvað við höfum fyrir okkur með það að kísilsýra "lak" úr Suðurskauts hafinu í heimsins höf. Ég veit ekki hvort einhverjum finnst gaman að lesa um það sem ég er að spekúlera í en þetta gefur kannski innsýn í jarðeðliisfræði og hvað menn spá í til að læra meira um veðurfarsbreytingar. Því það er tilgangurinn með þessu öllu saman: að læra meira um veðurfarsbreytingar fyrri alda, til þess að geta spáð fyrir um hvernig veðurfarsbreytingar við megum búast við í framtíðinni.

Efnisorð:


This page is powered by Blogger. Isn't yours?