26.9.18
Síðustu sumardagarnir
Haustið er svona að koma en við fórum í eina lokaferð í paradísina og nutum náttúru og sumarblíðu. Stelpurnar fóru í skógargöngu að leita að álfadísum með Jill vinkonu okkar. Það var svaka ævintýri.
Þær fóru í bátsferð um vatnið. Sólveig var með raunhæfar áhyggjur að Edda myndi ekki geta stýrt þeim aftur að landi en Ásta var með engar áhyggjur af neinu og kældi sig með því að dangla annari löppinni í vatnið. Sem betur fer gat mamman dregið hópinn sinn að landi á paddle brettinu.
Allir eru bara nokkuð ánægðir í skólunum sínum. Það er boðið upp á allskonar námskeið eftir skóla hjá Eddu og í dag var hún í spuna. Kom heim og sagði endalausa knock knock brandara. Á morgun fer hún í verkfræði sem henni finnst líka svaka skemmtilegt. Í gær var hún í fiðlutíma og á mánudögum fara systurnar í dans. Frí á föstudögum og síðan eru allir að jafna sig um helgina. Um síðustu helgi fórum við á barna-náttúrugripa safnið og sáum sýningu um Dóru og Diego. Það var svaka sport. Við fengum líka vini í brunch og fórum í afmælisveislu svo það var nú alveg stanslaus aksjón. Ásta stóð sig svaka vel í grjótglímunni og síðan stýri hún geimflaug til tunglsins.
7.9.18
St. Louis
Eftir labour day byrjaði skólinn hjá stelpunum. Edda komin í first grade, Sólveig í preschool og Ásta á grænu deildina. Ánægðust er Edda. Hún lýsti því yfir að héðan í frá væru föstudagar leiðinlegustu dagarnir því svo kæmi helgin og þá væri enginn skóli. Sólveig virðist ljómandi ánægð með að vera með þeim elstu í sínum skóla en Ásta greyið er svolítið leið með að vera komin á þessa grænu deild. Hún saknar Miss Emiline og Miss (Ni)cole. Hérna er Edda eftir fyrsta daginn, búin að týna öðrum sokknum...
Ég er nokkuð ánægð með lífið og tilveruna. Ég elska að hjóla með stelpurnar í skólana og fara í vinnurnar mínar. Mér finnst svo skemmtilegt að kenna og síðan finnst mér geggjað að skoða kóðann minn þar sem búið að að bæta við allskonar fítusum. Og fullt af kommentum. Get ekki neitað því að það er mjög hjálplegt. Ég er svo imponeruð yfir því sem þau gerðu. Svaka dugleg stelpa sem spáði bilað mikið í líkaninu mínu, bætti við olíu og skrifaði svaka fína grein.