19.8.18

Ber

Við fjölskyldan komumst aðeins nær því að upplifa alsælu þessa helgi.  Vinir okkar eiga hús á nektarnýlendu og buðu okkur í heimsókn sem við þáðum með þökkum og sáum ekki eftir.  Ég hef aldrei upplifað jafn mikla ást og alúð eins og þarna og börnin skemmtu sér svo vel að ég þurfti að draga þau æpandi í bílinn þegar það var tími til að fara heim.  Við vorum heilmikið í sundi, á ströndinni og á vatninu á kanó og paddleboard.  Það var svo fáránlega chilluð stemmning þarna.  Sannkölluð paradís.

Mér fannst það nú aðeins skrýtin tilhugsun að vera svona mikið innanum nakið fólk, að ég tali nú ekki um karlmenn.  Það er náttúrulega ekkert nema indælt að vera innan um naktar konur en ég hafði ekki mikla reynslu að vera innan um nakta karlmenn.  Í sumar sá ég mann mála mynd með typpinu á sér í sirkus og ég var í nokkra daga að jafna mig á því, mér fannst það eitthvað svo ógeðslegt.  Síðan var myndin seld á uppboði og mér varð óglatt við tilhugsunina um að eignast þessa mynd.  Svo ég get ekki neitað því að hafa verið aðeins uggandi yfir tilhugsuninni eða kannski bara óviss um hvernig ég myndi höndla þetta með alla þessa nöktu karlmenn.  En síðan fékk ég engar neikvæðar reaksjónir og þetta var allt í lagi.

Það var ekkert smá merkilegt að upplifa hvað föt gera mikið til að skerma mann af öðru fólki, líkamlega og andlega.  Um leið og fólk er farið úr fötunum er það orðið jafnara.  Það fyrsta sem maður sér er "hér er önnur manneskja". Ekki "hér er tískumeðvituð manneskja" eða hjólreiðakappi eða sveitadurgur.   Maður er bara þarna í guðsgrænni náttúrunni og sér aðra manneskju í allri sinni dýrð þá getur maður ekki annað en dáðst að sköpunarverkinu og brosað og boðið góðan daginn og manneskjan brosir tilbaka og endurgeldur kveðjuna og síðan fer meður að spjalla um hvað börnin eru falleg og umhverfið fallegt og dagurinn dásamlegur og svo áður en maður veit af er maður búinn að kynnast fullt af nýju fólki og hefur ekki liðið jafn vel í lengri tíma.

Comments:
Dásamlegt! Mig langar (kannski) á nektarnýlendu;)
 
Ég held þú myndir elska það Svava. Ég held að meira og minna allir myndu elska það.. sérstaklega svona fólk sem er búið að taka út smá þroska.
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?