24.4.18

Óskadagur

Við vorum að keyra í skólann og Edda lýsir því yfir að í dag sé óskadagur.  Þá mega allir óska sér og hennar ósk sé sú að veðrið fari eftir árstíðum.  Hún var ósátt yfir því að það væri komið vor en samt væri enn vetrar veður.  Gott að hún býr ekki á Íslandi litla greyjið.  Sólveig hins vegar óskaði sér að hún byggi á sömu eyju og amma, þannig orðaði hún það.  Þessi Ameríkueyja fullnægði henni alls ekki.  Ég óskaði mér að börnin mín væru sátt við það sem þau hefðu og Ásta óskaði sér einhvers sem við skildum ekki alveg.

Ásta er farin að tala svaka mikið og margt af því skiljum við.  Hún segir manni allskonar.  Þegar ég kom að sækja hana í leikskólann sagði hún mér að Lucy væri farin.  Hvert fór hún spurði ég og þá sagði hún að hún hefði farið heim.  Og þetta var alveg rétt.  Hún er með stanslausar fréttir af líðandi stundu.  Þegar við erum að borða segir hún Ásta borða matinn og þegar ég er að lesa segir hún mamma lesa og síðan kemur kannski lag og þá segir hún mamma syngja.  Hvar er pabbi, pabbi vinnunni.  Þetta er eitthvað sem hún segir nokkuð stanslaust allan daginn.  Reyndar er hún nýfarin að kalla Óla Habba.  Við skiljum ekki mikið í þessu því hún er búin að segja pabbi með péi í marga mánuði.

Mig dreymdi salat sem var ekkert smá girnilegt.  Allskonar litir og lime og baunir og grænmeti.  Það var svaka skýrt.  Þetta er í fyrsta sinn sem mig dreymir mat að ég muni.  Því miður náði ég ekki að elda það í kvöld, við vorum bara með hrísgrjóna graut.  Ætli þetta séu skilaboð frá líkamanum mínum að borða betri mat.  Þetta er síðasta vikan mín í skólanum að kenna.  Síðan er lokapróf í vikunni þar á eftir og ég get ekki beðið eftir að þessu sé lokið, þó svo þetta hafi verið æðislega skemmtilegt.

Hvað er annað að frétta af okkur... Eddu finnst æðislega gaman í skólanum.  Hún er svaka ánægð.  Kennarinn hennar er algjör stjarna.  Með eiturbleikt hár og svo hress og úrræðagóð.  Ásta er algjör vettlingastelpa (mettídú = vettlingar), elskar að vera í vettlingum, inni eða úti, í rigningu eða sól.  Mamma var í heimsókn hjá okkur um páskana.  Það var yndislegt.  Eins og stelpurnar geta fúlsað við venjulegasta mat (ég elska ekki kjúkkling) þá elska þær ostrur.  Og fyrst ég er að setja inn myndir þá kemur enn ein af Sólveigu að fagna fjögura ára afmælinu.







This page is powered by Blogger. Isn't yours?