10.2.18

Frumburðurinn 6 ára

Og formlegur neytandi.  Hún var agalega ánægð með afmælið sitt.  Og flestar gjafirnar.  Það byrjaði nú með því að skólanum var lokað vegna veðurs en sem betur fer bauð ein mamman í skólanum Eddu að vera með þeim sem við þáðum því mínum skóla var ekki lokað og Edda var ljómandi ánægð með það.  Þau bökuðu kökur og skemmtu sér frábærlega.

Ballinu sem við ætluðum á var frestað og pabbinn í Telluride en við hugguðum okkur heima um kvöldið með lax og kökur sem við fengum í nesti frá vinkonunni og opnuðum pakka.  Barnið fékk allskonar fínt.  Nýjan danskjól og náttkjól, fótboltaskó sem hún var bilað ánægð með og fjarstýrðan bíl.  Perludót eitthvað Frozen sem hitti líka í mark.  Og, það sem er búið að vera efst á óskalistanum síðan ég man ekki hvenær er ipad.  En þar sem foreldrarnir eru ekkert á því að gefa sig í þeim efnum fékk ljósið mp3 spilara.  Með vídjói og upptökumöguleika og vekjaraklukku.  Nema hvað.  Það er svona pínu flókið að læra inn á takkana.  Volume sem er niður fer líka til baka en til að fara niður þarf maður að smella á til hægri.  Það er hins vegar orðið nokkuð náttúrulegt fyrir mig að smella á niður þegar ég vil fara niður svo ég ruglast í þessu og við erum aðeins í vandræðum.  Allavegana.  Í kvöld, allir sofnaðir nema Edda enn vakandi klukkan hálf tíu,  staulast hún fram með græjuna í eyrunum að hlusta á eitthvað popp sem fylgdi með því hún er bara ekki áhugasöm fyrir Pétri og Úlfinum sem móðirin setti inn.  Og segir með smá uppgjafatón: mamma, heldurðu að þegar ég verð 7 þá geti ég fengið eitthvað betra tæki?  Þá get ég gefið Sólveigu þetta.  Hún var ekkert volandi, meira bara svona deila þessari pælingu með mér.

Við áttum frábæran dag í dag.  Byrjuðum á vöfflum og heitu súkkulaði og síðan fóru allir út að leika í snjónum.  Beint í bílinn og í kids club meðan mamman fór að lyfta.  Þá á fótboltaæfingu og smoothie í bílnum á leiðinni.  Heim með afmæliskaffi fyrir Megan og Gail.  Ég henti í eina perutertu sem hitti í mark.  Síðan pumpkin súpa í kvöldmat, kardemommubærinn og allir að sofa.

Á morgun erum við að fara á Disney on Ice.  Það verður örugglega alveg stórkostlegt.  Ég er reyndar strax farin að kvíða fyrir að vilja ekki kaupa einhverja ljósa sprota sem verða til sölu fyrir fúlgu fjár.  Um næstu helgi verður afmælið á skautasvellinu.  Það verður örugglega stórkostlegt.  Það eina sem ég man eftir mínu sex ára afmæli er að ég fékk úr frá foreldrum mínum.  Mjög fallegt úr með rauðri skífu en auðvitað fannst mér svekkjandi að fá ekki eitthvað plast dót.  Það þjónaði mér hins vegar vel og ég held ég hafi átt það í mörg ár.

Comments:
Frábær afmælissaga. Hún á góða foreldra.
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?