26.9.17

Stúlka


Ég man ekki hvort ég var fjögurra eða fimm ára þegar ég fattaði að ég yrði aldrei strákur.  Ég man þetta mjög skýrt.  Ég var í bát á leikvellinum í hlutverkaleik og ég var pabbinn.  Eða frændinn.  Einhver karlmaður.  Og þessi uppgötvun átti sér stað: ég er stelpa og það er ekki að fara að breytast.  Ósanngirni og svekkelsi sauð í mér.

Sumarið sem ég varð 12 voru geirvörturnar mínar að byrja að standa út og mér var ljóst að þetta væri síðasta sumarið sem ég væri ber að ofan.  Það var líka sárt.  Það er fátt jafn yndislegt og að hlaupa um í sól og hita bara á stuttbuxunum.  Ári seinna byrjaði ég á túr.  Sársauki og subb.  Blóð og sviti.  Hnausþykk dömubindi í nærbuxunum.  Ég trúði í alvörunni ekki mínu eigin kynferði.  Hvers áttum við að gjalda?

Síðan var ég eitthvað í kringum þrítugt þegar ég henti álfabikarnum eftir 5 ára samlíf, vildi ekki nota tappa og þoldi ekki dömubindi.  Ég vissi bara ekki hvað ég átti að gera og yfir mig skall enn ein alda örvæntingar yfir því að vera kven spendýr sem hefur á klæðum.

Og þá gerðist það.  Ég uppgötvaði margnota tau dömubindi.  Google svaraði kalli mínu um umhverfisvæna lausn á þessum vandræðum.  Margnota tau dömubindi.  Hvers vegna hafði mér ekki dottið þetta í hug?  Á augnabliki var ég orðin eigandi tau dömubinda og þau voru á leiðinni í pósti.  Ég gat ekki beðið eftir að byrja á túr.  Og þegar það gerðist var það geggjað.  Það er geggjað að geta farið á túr og vera með dömubindi en það er eins og maður sé bara í nærbuxunum sínum vegna þess að þetta dömubindi er úr bómull.  Maður finnur ekki einu sinni fyrir því.  Maður svitnar ekki undan því.  Það er flott á litin eða með myndum af litlum sætum blómum.  Það eru engin hormónaraskandi efni eða þungamálmar eða einhver lífræn eða ólífræn efni sem erta slímhúðina í kynfærunum manns.  Í kjölfarið líður manni betur, fær minni túrverki, minni blæðingar, minni hormónasveiflur.  Allt í einu er frábært að vera kona.  Allt í einu leið mér ekki lengur eins og við konurnar hefðum dregið styttra stráið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?