31.3.16

Nýtt barn er fætt

Litla barnið ákvað loks að láta sjá sig.  Ég var með létta samdrætti í sólarhring áður en við fórum upp á spítala.  Við vorum komin þangað um 8 leytið í gærkvöldi.  Ljósan skoðaði mig og kvað upp að ég væri komin með 5 í útvíkkun.  Óli bjó sig undir að við myndum vera þarna alla nóttina, smám saman að komast upp í 10.  Hann stóð sig mjög vel með allskonar trix.  Kaldan bakstur á ennið, klaka til að bleyta munninn, slökunaræfingar og ég gat látið hríðarnar skolast yfir mig eins og stórar öldur.  Um 10 leytið eru þær orðnar svolítið kröftugri og ljósan kveður upp 7.  Síðan er ég bara stödd úti á rúmsjó í ólgu og óveðri, hver aldan skellur á mér á fætur annarar, mér finnst ég vera að drukkna.  Þá segir Óli mér að ég geti þetta og mín eigin rödd segir að líkami minn sé sterkur og ég geti þetta.   Það var alveg magnað að við þessa uppgötvun lygndi skyndilega og öldurnar lægðu.  Allt varð viðráðanlegra.  Síðan fer eitthvað að þrýsta á mig sem vill komast út.  Ég fer upp á fjóra fætur og barnið vill út.  Það er náttúrulega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er svakalegt.  Umkomuleysið og sársaukinn.  Það er ekki um annað að ræða en að taka þátt í þessu prógrammi og halda áfram, beisla dýrslegan kraftinn sem býr innra með manni og nota hann til að koma barninu í heiminn.  Ég hélt að þegar höfuðið væri komið út þá væri þetta meira og minna komið.  En þá eiga víst axlirnar eftir að koma líka og þær voru eitthvað fastar.  Ljósan gólaði "öxl" og smá her kom hlaupandi.  Mér var kastað á bakið, fæturnir teygðir upp í loft og fólk ýtti á bumbuna eftir kúnstarinnar reglum og pop, barnið fætt.  Tíu mínútur í ellefu.  Ljósan sveiflar því upp á mig og það er stúlka.  Svo yndislega falleg.  Ekki ósvipuð stóru systrum sínum.  30. mars 2016, 3820g.




Comments:
Yndisleg er hún elsku Tinna mín og aftur hjartanlega til hamingju með yndislegu og fallegu stúlkuna :-) Stórt knús úr Rauðhömrunum
 
Innilega til hamingju elsku Tinna mín! Yndisleg mynd (hjarta (ekki hægt að gera hjarta á þessu lyklaborði:)) Þú hefur staðið þig eins og hetja:) Ást frá klakanum
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?