16.3.16

Elmo gerði það

Við vorum að bíða eftir uber og ég fór upp að sækja vettlinga á kvefkálfinn.  Ég sagði þeim sérstaklega að þær mættu ekki róta í töskunni með fötum og teppi sem átti að fara með í leikskólann.  Setti hnút á böndin máli mínu til ítrekunar.  Síðan kem ég aftur niður nokkrum mínútum seinna og þá eru fötin komin útum allt.  Aumingja Edda var agalega skömmustuleg að reyna að setja allt ofaní aftur.  Ég set í brúnirnar og spyr hvað þetta sé eiginlega.  Sólveig rótaði öllu útum allt er svarið.  Svo drífum við okkur í bílinn og ég held áfram að segja að ég sé ekki ánægð með þetta.  Ég hafi sérstaklega sagt þeim að þetta mætti ekki.  Aftur er viðkvæðið að það sé Sólveig sem er sökudólgurinn.  Svo ég segi við Sólveigu að hún hafi ekki mátt róta fötunum svona útum allt.  Þá lyftir litli apakötturinn upp Elmo og segir án þess að blikna að það hafi verið Elmo.  Það er ekki mikið hægt að segja við því.  Ég átta mig alveg á því að ég þarf að nota orkuna í eitthvað annað en að skamma Elmo eða eiga í rökræðum við rökleysing um að tuskudýr taka ekki uppá skammastrikum upp á sitt eigið.  Hú ha.  Elska leikskóladaga.

Comments:
he, he krúttlegt;)
 
Indælt.
 
Þær krútta þig alveg í kaf Tinna mín :-)
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?