28.5.15
Gleðilegan túrdag
Ég hef aldrei verið jafn ánægð með að byrja á túr en á sjálfum alþjóðlegum degi túrsins. Fyrir utan að vera dauðfegin að vera ekki ólétt finn ég hjá mér hugarfarsbreytingu í garð þessa tímabils mánaðarins þegar líningin í leginu mínu brotnar niður.
Mér finnst ekkert smá merkilegt að allar stelpur, meira og minna, sem ná unglingsaldri byrja á túr og eru með blæðingar einu sinni i mánuði i um 30, 40 ár. Og samt er þetta feimnismál, áhyggjumál og allskonar önnur mál sem eru allur skalinn af vandamálum.
Á vesturlöndum búa konur við það að vera hvattar til að setja mis eitraðar plastvörur á milli lappanna. Meðan í öðrum heimshornum búa stelpur við þann raunveruleika að geta ekki mætt í skólann vegna ranghugmynda um tíðahringinn. Í nafni guðs mega sumar konur ekki elda meðan þær eru á túr.
Svo það er full ástæða til að hafa alþjóðlegan túr dag til að reyna að bæta úr þessum ruglingi.
10.5.15
Oxford
Ég fór í mína fyrstu vinnuferð sem freelance scientist til Oxford á Bretlandseyjum. Það var geggjað. Í allskonar víddum. Það var gott að fá frí frá börnunum mínum og það var gott að spá í vísindum aftur. Ég var alveg í nokkra daga að jafna mig áður en ég gat slakað á í þessu nýja hlutverki og síðan fór ég aftur til NY. En við áorkuðum ýmsu og fengum eina góða hugmynd sem var hjálplegt. Ég skoðaði mig aðeins um í Oxford, fór m.a. í túr um Bodlian Library sem er um 500 ára gamalt bókasafn. Þessi bær er engum líkur. Mér finnst eiginlega hálf ótrúlegt að hann skuli vera til.