11.12.14

Er líða fer að jólum

Við Edda erum orðnar mjög spenntar fyrir heimferðinni.  Við höldum af stað á morgun og Edda er full tilhlökkunar yfir öllum æfmælunum sem okkur er boðið í.  Erum búnar að kaupa gjafir sem Eddu líst mjög vel á fyrir sjálfa sig.  Sólveig er spennt fyrir því að fá meiri athygli en henni finnst einum of hvað Edda er mikill miðdepill.

Edda sér samt ekki sólina fyrir Sólu.  Við vorum hjá lækninum í 9 mánaða og tveggja og hálfs árs skoðun og þegar Sólveig var búin að fá sprautu í lærið og fara að háskæla þá brölti Edda upp á borðið og girti niðrum sig til að fá sína sprautu.  Hún var svo spennt fyrir að fá sprautu að hún fór ekkert að skæla.  Var bara á svipinn eins og hún væri að hugsa "já þess vegna fer Sóla að gráta, vegna þess að þetta er svolítið vont".  Dr. Saha var ekki lítið ánægður með þetta fyrirkomulag.

Við fórum á jólaball um helgina og hittum Gluggagæji.  Hann gaf Eddu lítinn pakka með hlaup körlum og jóladóti.  Allir dönsuðu í kringum jólatréið og sungu.  Þetta var algjört dúndur.  Við fórum líka í playdate til vinkvenna okkar mæðgna sem var skemmtilegt nema aumingja Sofiu fannst svolítið stress að fá börn í heimsókn að róta í dótinu sínu.  Síðan fórum við í playdate til Gracie og fjölskyldu með öllum í bekknum.  Það var líka mjög spennandi.

Ætli ég verði ekki að fara að sofa.  Stór dagur á morgun.  Sem betur fer verður Anna með okkur í fluginu.  Óli ætlar að fylgja okkur á flugvöllinn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?