27.9.14

Langur tími ekkert blogg

Nú er mér kannski að batna.  Ég er búin að vera ómöguleg til heilsunnar eftir seinasta barnsburð en núna loksins held ég að þessu sé að linna.  Guð minn góður.  En það er ágæt reynsla að missa svona heilsuna.  Maður sér lífið aðeins í öðru ljósi eftir á.

Í 9. bekk lærði maður um muninn á þróunar og þróuðum löndum.  Eitt sem aðskilur þessa heima er forgangsröðun fólksins.  Mér fannst þetta áhugavert.  Landfræðingar hafa spekulerað í þessu og það kemur í ljós að allir setja heilsuna í toppsæti.  Í þróunarlöndum vill fólk gjarnan hafa vinnu meðan okkur finnst bara kostur að vera ekki með vinnu.  Við myndum frekar vilja vera í skóla meðan þeim finnst það vera lúxus.  Reynslan er góður kennari.  Núna skil ég þetta í nýrri vídd hvað það er mikilvægt að hafa heilsu.  Ég skildi það áður bara í höfðinu, en núna skil ég það með öllum líkamanum.

Annars er allt að komast í fastar skorður hérna.  Edda er byrjuð í nýja leikskólanum sínum.  Hún er í meðallagi lukkuleg.  Henni finnst það tvímælalaust erfitt en hún stendur sig svaka vel.  Gólar ekkert og fer eftir öllum leiðbeiningum.  Sólveig heldur áfram að vera draumabarn.  Hún leikur sér á gólfinu og hjalar.  Um síðustu helgi var hún reyndar lasin og við þurftum að fara á bráðamóttökuna þar sem hún fékk meðal og allt var í góðu.

Hérna eru systurnar að róla saman í fyrsta skipti.  Edda litla öfugsnúna situr öfugt í rólunni.


Sólveig fékk rúm og Edda varð aftur beibi, í smábarnagalla með smekk


Og þetta eru nýjustu myndirnar.  Sólveig farin að standa og Edda í múnderingu að eigin vali.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?