30.12.13

Jóla jól

Við erum búin að hafa það svaka gott yfir hátíðirnar.  Það er svo gaman að vera barn á jólunum.  Ég er náttúrulega ekki barn.  Edda er barn og henni fannst skemmtilegt.  Við erum með svaka stórt jólatré þar sem flest skrautið er í rúmri meters hæð.  Svolítið skondið.  Við vorum með eitt epli úr tré á trénu neðarlega en Edda reyndi að borða það og nú er málningin flögnuð af.

Edda fékk svo margar gjafir að hún var í þrjá daga að opna þær.  Ég hugsa að næsta ár verði hún ekki svona lengi að þessu.  Núna opnaði hún eina gjöf og fór síðan að leika sér að henni eða lesa bókina ef það var bók.  Síðan virtist hún bara gleyma því að þarna væru fleiri pakkar og fór eitthvað að dúlla sér.   Síðan fór hún að sofa.  Vaknaði daginn eftir og opnaði nokkra pakka.  Fór aftur að sofa.  Vaknaði daginn eftir og þá tók ég málin í mínar hendur og rétti henni pakka þangað til þetta var búið.  Þetta fannst mér merkileg hegðun.  Ég var ekki rónni fyrr en ég var búin að opna mína pakka.

Ég fékk nokkrar bækur.  Bókina um pólfarann sem ég gat ekki hætt að lesa, þetta var svo spennandi frásögn og góð.  Svaka flott stelpa og kúl og Sigmundur Ernir líka góður.  Maður getur ekki gert sér í hugarlund hvernig það er að vera í 30-40 stiga frosti í tvo mánuði aðeins með smá prímus, þurrmat og sölt.  Ég man eftir dögunum sem voru 20 stiga frost í Chicago og á 12 míútna leið í skólann var það eina sem komst fyrir í höfðinu á manni var "ég verð að komast inn ég verð að komast inn".  Enginn séns að vera með einhverjar vangaveltur um tilgang lífsins eða liðna tíma.   Síðan fékk ég bókina eftir Sjón og bókina eftir Jón Kalman og eina mjög spennandi bók um gerjun.  En það er næsta viðfangsefni hjá mér.  Að gera súrkál.  Fékk líka krukku til þessa.  Mjög spennandi.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?