3.11.12
Edda 9 mánaða
Húðin hennar er mjúk eins og silki. Hún er rétt komin með smá hár en úr fjarlægð virkar hún sköllótt. Hárliturinn hennar er ljós kastaníu brúnn. Augun eru blá og full tilhlökkunar um hvað muni gerast næst. Litli kroppurinn hennar er stæltur og hún skríður áfram á fullu spítti, klifrar upp þrep og hangir í brúnum og hverju sem hún getur náð taki á. Hún er nýbúin að taka ástfóstri við lítið tuskudýr og tekur hann með sér í ferðalög yfir gólfið. Ef hún þarf að nota hendurnar í eitthvað flókið stingur hún snoppu bangsans upp í sig og heldur á honum eins og hundur. Um daginn sýndi hún pabba sínum þennan nýfengna vin og bauð honum að smakka á annari loppunni en það er víst mjög notalegt að sjúga hana. Yfirleitt þegar við förum út að ganga er hún í magapoka framan á mér. Undanfarið hefur hún verið að reigja sig til að horfa meira fram því hún sér annars bara til hliðanna. Þá snýr hún annað hvort upp á allan líkamann eða teygir höfuðið aftur á bak eins langt og hún nær og horfir afturfyrir sig á hvolfi. Þetta virðist ekki ýkja þægilegt. Síðast þegar við fórum út leyfði ég henni að sitja í kerru. Það var hún ánægð með og söng meira og minna alla leiðina. Aaaaaaaaaaaa. En það er eini stafurinn sem hún kann.
Comments:
<< Home
Veistu Tinna, ég er búin að lesa þessa færslu svona 8 sinnum á næstum því jafn mörgum dögum. Fæ alltaf svolítinn hamingjusting þegar ég hugsa um Litla skott japlandi á kanínubangsanum og get hreinlega ekki beðið eftir að hitta hana aftur um jólin!
Skrifa ummæli
<< Home