19.12.11
Jólin koma
Óli jólasveinn. Við keyptum í fyrsta sinn alvöru jólatré og það ilmar eins og sítróna. Alveg æðislegt. Það er líka svaka stórt. Stærra en ég. Núna þegar við erum að verða alvöru fjölskylda verðum við að hafa alvöru jólatré.
Ég er búin með enn eitt saumastykkið. Það er sængurver. Frekar lítið. En voða sætt. Grænt og bleikt mynstur öðru megin og hvítt hinu megin.
Við Óli erum þessa dagana alveg á útopnu að njóta þess að fara út á lífið á kvöldin. Fórum í óperuna á föstudaginn að sjá Hans og Grétu eftir Engelbert Humperdinck. Þetta er eiginlega barnaverk en það er orðin hefð í the Met að sýna það fyrir jólin. Ljómandi skemmtilegt.
Það er svo fyndið að vera að fara að eignast barn. Maður undirbýr allskonar. Kaupir húsgögn (rimlarúm og skiptiborð), pínulítil föt sem passa, kannski saumar maður nokkur. Það er svaka mikið vesen. Maður fer á námskeið. Við Óli þurfum að fara á tvö til að mega eignast þetta barn. Konan borðar svaka mikið og hættir að drekka áfengi og kaffi. Maðurinn kaupir myndavél og lærir á stillingar og ljósop. Tala nú ekki um allar bækurnar sem maður les um smábörn og hvernig á að hugga þau, tala við þau, hjálpa þeim að tjá sig, kenna þeim að vera til í heiminum. Vísindagreinar um bólusetningar. Þetta er heljarinnar undertaking. Síðan mætir barnið og er algjörlega unimpressed og skilur ekkert í því hvers vegna maður var að hafa fyrir þessu. Frá A til Ö. Eiga sig yfir höfuð. Og hverju svarar maður þá? Okkur langaði svo að eiga barn. Lífið er svo dásamlegt að okkur langaði að deila því með þér. Eitthvað þannig.