28.7.11

Thank you Mood!

Ég er aðeins búin að vera að horfa á Project Runway. Það var sennilega þar sem ég fékk hugmyndina að saumavélinni. Mig langar svo að vera í svona fínum fötum eins og þau búa til og nú er ég komin með tvö skref af þrem. Komin með saumavél. Búin að fara í Mood og kaupa efni. Á bara eftir að sauma. Það gæti verið að það sé erfiðasta skrefið og það sem líklegast er til að ganga ekki eftir eins og hugur stendur til.

Ég er að hugsa um að láta Sunnu kenna mér undirstöðu atriðin í saumum og fatasmíð. Það býr líka yfir þeim kosti að fyrir utan að læra undirstöðu atriðin í saumum og fatasmíð get ég kennt Sunnu um ef útkoman er ekki sú sem ég hafði í huga.

Það var ekki lítið ógnvekjandi að fara í þessa búð. Ég er náttúrulega algjör viðvaningur þegar kemur að saumaskap og efnisvali. Ég vissi allavegana að ég vildi hvorki ull né pólýester. Mig langaði að kaupa lífrænt ræktaða bómull en úrvalið var bara ekki nógu gott. Skær appelsínugult og grátt og grænt. Ojjj. Svo ég keypti venjulega bómull og konan sem klippti fyrir mig sagði að Jersey væri vinur minn. Þannig komst ég að því að þetta er Jersey-bómullarefni. Svo nú veit ég allavegana eitthvað.

Vonandi verður það næsta sem gerist að þessi bloggari breytist úr því að vera ráðviltur vísindamaður sem er eitthvað að hangsa í New York borg í súper-heimilismóður sem saumar á fjölskylduna tískuföt og gardínur í svefniherbergið. Það er samt aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?