1.4.09

ga NaN ... system breakdown

Fordómar eru eins og litlir spörfuglar í búri. Búri sem hangir inní manni. Enginn veitir því sérstaka athygli nema þegar fordómarnir brotna niður, þá líður manni eins og maður hafi frelsað lítinn fugl og hann flýgur í burtu. Manni léttir þó maður hafi ekki vitað að maður hefði þessa fordóma.

Jane Fonda er núna sjötíu og eins árs og er að leika í leikriti um Bethóven. Það var viðtal við hana í útvarpinu í morgun og vá hvað ég varð hissa þegar ég komst að því að þessi glæsilega kona var Jane Fonda. Ég var búin að hlusta í dágóða stund þegar spyrillinn segir "við erum að tala við Jane Fonda sem er að leika í leikritinu 33 variations.

Ef maður hugsar um sjálfan sig sem tölvuforrit, sem maður gæti gert ef lífið manns snýst um tölvuforrit, þá var það fasti inní mér sem sagði að Jane Fonda væri eitthvað sérkennileg. Ég veit ekki útaf hverju. Það eina sem ég veit um þessa konu er að ég hef séð hana í leikfimigalla, sem er kannski einu númeri of þröngur, framan á vídjóspólum á vídjóleigum. Einhvern veginn varð það að fastanum Jane Fonda er ga-ga. En ég hafði aldrei þurft á þessum fasta að halda. Aldrei þurft að reikna út álit mitt á Jane Fonda eða neitt í þeim dúr. Þangað til í morgun. "Við erum að tala við Jane Fonda ..." og það sem kom á skjáinn var NaN inf NaN. Fuglinn sleit sig lausan og það kom í ljós að fastinn var breyta og er núna: Jane Fonda = svaka kúl.

Þetta var yndislegt. Yndisleg tilfinning að hafa jákvæðan fasta frekar en neikvæðan. Þó svo maður noti hann ekki.

Og þetta er munurinn á tölvuforriti og manneskju. Tölvuforrit er alveg sama um fasta sem það ekki notar, en hjá mannfólkinu lýsa þeir sig sem litlir spörfuglar, fangar í búri og þrá frelsi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?