12.2.09

Götulíf

Þegar ég meika ekki að spekúlera í bakteríum lengur stend ég upp og kíki út um gluggann. Það er hin ágætasta skemmtun því um göturnar gengur allskonar fólk með fangið fullt af pokum og pinklum. Konur í pinnaskóm eða með barnavagn, menn með hatta eða guidebók undir arminn. Þetta er alveg nýtt fyrir mér. Síðast er ég bjó í miðbænum var ég sex ára. Á Þórsgötunni var ys og læti en þá fluttum við í næstu götu við Kringluna og fólkið var falið inní maganum á skrímslinu. Í Singapúr sá maður fólk í sólbaði við sundlaugabarminn út um gluggann. Í Dubai man ég satt að segja ekki eftir því að hafa horft út um gluggann. Í Hellulandinu sá maður grasbala sem þurfti að slá vikulega og í Hyde Park sé ég inn til nágrannanna, hjón af afrísku bergi brotin með hvíta vinnukonu. Reyndar bjó ég meira og minna í miðbæ Kaupmannahafnar sem var súper. Jafn mikið súper og miðbær Nýju Jórvíkur.

Ég er alveg að fíla það að búa í miðbænum. Elska að eiga engan bíl. Elska að labba útí búð á hverjum degi til að kaupa hvaða grænmeti sem er ferskt. Elska að það eru veitingastaðir á öllum götuhornum. Bókabúðir. Skemmtistaðir. Það eina sem vantar er grasbali til að slá og mold til að grúska í. En, það er ekki hægt að hafa allt. Eins og þjóð mín hefur svo átakanlega komist að á undanförnum dögum. Ekki hægt að eiga bæði glamúr konu úr efristétt og prúða frú sem situr stillt og þegir. Ekki hægt bæði að eiga kökuna og borða hana, eins og kaninn segir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?