8.8.08

Tinna þrítug

Ég átti svo ljómandi gott þrítugsafmæli fyrir nokkrum dögum að ég verð endilega að setja inn nokkrar línur og kannski mynd frá því.

Afmælið mitt byrjaði á því að Óli bauð mér í morgunmat á fínasta bakaríið í bænum. Sívætlu bænum. Þar fékk ég með betri smjörbeyglu og síðan köku, kampavíns-mousse-peru-köku. Þetta var svaka huggulegt og indælt en ég er mikill bakaríis aðdáandi svo ég var himinlifandi. Eins og sést einmitt á þessari mynd.


Eftir morgunverðinn keyrðum við upp í North Bend og klifruðum nokkrar vel valdar fjögra stjörnu brautir. Ég set hérna eina mynd af mér í skóginum á leið að klettunum því það er aðeins erfitt fyrir okkur að taka myndir hvort af öðru að klifra þar sem sá sem er ekki að klifra en gæti tekið mynd á að vera að einbeita sér að því að halda í reipið svo sá sem er að klifra steypist ekki niður á jörðina.



En þetta er einmitt baguette sem stendur upp úr bakpokanum mínum því við vorum að sjálfsögðu með voða lúxus hádegisverð með okkur.

Um kvöldið fórum við síðan út að borða með gestgjöfunum okkar, Angie og Justin. Því miður er engin mynd til af því svo ég set í staðin mynd frá því í gærkvöldi þegar við Óli elduðum svaka fínan mat og ég fékk kjól og bakarakörfu í afmælisgjöf. Á matseðlinum voru tvennskonar rauðbeðu salöt, annað með rauðbeðunum, hitt með stönglum og laufum, fiskur með lauk-sinneps chutney og salat. Ostarnir voru tomme og gráðosturinn sem er í laginu eins og súla, búinn til með hvítvíni, man ekki hvað hann heitir, ódýr en svaka góður. Og síðan var vanilluís með berjum í eftirrétt. Vínið var Costa De Oro, 2004.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?