24.7.08

Fuglaflensan

Enn eitt skiptið ligg ég með óráði í rúminu, fárveik. Í þetta skiptið held ég að fuglaflensan hafi náð bólfestu í mínum auðtrúa vefjum. Þannig var það að ég kom heim úr vinnunni aðeins þreytt og hugsa með mér að ég gæti sest aðeins út á svalir með bók áður en ég fer að taka til kvöldmatinn. Allt í góðu með það nema þegar ég stíg út er þar fyrir lítill fugl, eða kannski af meðalstærð. Hún virðist vera aðeins slöpp því þar sem hún reynir að fljúga í burt stímir hún fyrst á vegginn og síðan svalirnar fyrir ofan og endar með því að veltast niður á skyggni fyrir ofan innganginn. Hún hafði setið í hægindastólnum sem var nú orðinn allur útí fiðri og skít en ég gerði mér lítið fyrir og sópa öllu í burtu með tuskuræfli. Jæja, svaka góð bók, yndislegt að sitja útá svölum þar sem sólin er að búa sig undir að setjast... Nema hvað. Klukkutíma síðar ligg ég upp í rúmi, undir teppi, í ullarpeysu og lopasokkum hríðskjálfandi. Síðan hálfnakin, kófsveitt og stynjandi. Og fuglinn á sínum stað. Greinilega með flensu.

Óli var nú ekki alveg að kaupa þetta. Enginn í Ameríku búinn að fá fuglaflensuna. En ég gæti verið sú fyrsta. Það verður alltaf einhver að vera fyrstur. Allavegana. Það sökkar að vera með flensu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?