30.6.08

Mamma hans Øystein

hafði stundum pönnukökur í kvöldmatinn.

Einu sinni, endur fyrir löngu, fékk besti vinur lítils hnátuskotts af og til pönnukökur í kvöldmatinn. Það fannst sætu litlu stelpunni svakalega eftirsóknarvert. "Mamma, heldur þú að við gætum kannski haft pönnukökur í kvöldmatinn?" "Ha ha ha", hló mamman, henni fannst þetta svaka sniðugur brandari og anginn litli vissi að það myndu aldrei vera neinar pönnukökur í kvöldmatinn á því heimili.

Árin liðu og stúlkan litla óx og dafnaði. Hún var reyndar alltaf mjög ánægð með matinn sem henni var boðið upp á á sínu æskuheimili nema einu sinni þegar það var fiskur í orly (que?). Það varð úr að hún gifti sig og flutti að heiman og bjó manni sínum gott og ástríkt heimili. Af og til eru pönnukökur í kvöldmatinn.

Í kvöld voru pönnukökur í matinn. Pönnukökur þessar voru gular. Ég hef aldrei séð þannig pönnukökur samt hef ég notað þessa uppskrift árum saman. Eggin, mjólkin og smjörið gerði gæfumuninn. Allt þetta kemur beint frá bóndanum og ekki úr útúrstressuðum hænum og kúm sem fá sprautur daginn út og inn og borða eitthvað jukk sem þeim lýst í raun ekkert á. Nei. Ekki hafa þessar vörur heldur verið leifturhitaðar til að búa til rammgerðar bakteríur heldur kemur mjólkin bara beint úr kúnni og eggin beint úr hænunni. Því lyktar mjólkin eins og fjós og eggjarauðurnar eru eins og glóandi gull.



Á þessum myndum má sjá hvað okkur hjónum finnst mismunandi matur spennandi.



Í desert er síðan náttúrulega pönnukaka en í þetta skiptið með jarðaberjum, Illinójískum, og súkkulaði og er það sennilega það besta sem ég veit. Ég get ekki annað en brosað út að eyrum og kurrað þegar ég fæ pönnukökur með súkkulaði og berjum. Ég mana einhvern til að minnast á eitthvað sem er betra en það.

Annað frábært við þetta kvöld er það að við náðum að gera skattframtalið.. svona hálfu ári of seint.. en, betra seint en.. jepp.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?