15.6.07

Bloggað úr strætó

Nei þetta er ekki grín. Ég sit hérna í strætó á leiðinni frá Corvallis til Portland. Útsýnið eru grænar hlíðar og tré. Stór og falleg tré eins og í ævintýrum. Það er ekkert smá fallegt hérna. Það eina sem fólki dettur í hug að segja þegar umræðan snýst að Oregon er alltaf "já það er svo fallegt þar". Ég var alveg komin með leið á því að heyra þetta en síðan kem ég hingað sjálf og þetta er bara málið. Ofsalega fallegt í Oregon. Það eru fjöll hérna, strjálbýlt, svakalega mikið af trjám, eða, ætli það kallist ekki skóglendi. Íslendingurinn og Chicago búinn hefur ekkert vit á trjám, er alveg gapandi yfir þessu öllu saman.

Ég held að fyrsta vísindaferðalagið mitt hafi bara heppnast vel. Þó nokkru var áorkað þó svo að niðurstöður liggji enn ekki fyrir. Einnig er óvíst hversu góðar/áhugaverðar niðurstöðurnar verða en ég held að þær verði áhugaverðar því ég er með svo ótrúlega spennandi spekúlasjónir í huga til að kanna. Hefur að gera með kalsíum karbónat. Jei.

Vorum rétt í þessu að keyra framhjá trjáa-barnaheimili.. tree-nursery. Unglingstré þekja hæðir og hóla svo langt sem augað eygir. Og núna vínræktar svæði. Ohhh, pínu-ponsu grenitré. Ég féll alveg fyrir Oregon á þessu ferðalagi. Oregon er ólík þeirri Ameríku sem ég hef séð hingað til. Hér eru allir kommar. Blöðin eru full af greinum um minnihlutahópa sem eiga að fá betri kjör, mengunarslys sem þarf að sinna og um það að eignast vini. Ég trúði því nú ekki í morgun, þegar ég las forsíðuna á The Oregonian: kona hafði misst fót í slysi en eignast vinkonu í kjölfarið. Síðan var öll greinin um vinskapinn, þær keyra saman í vinnuna á morgnana.. já, las ekki lengra. Hérna fær maður aldrei einnota diska eða hnífapör heldur á maður að setja diskinn og hnífapörin í þar til gerða körfu þegar maður er búinn að borða á veitingastöðum. Kaffið er það besta í allri Ameríku. Veðrið er akkúrat passlegt, hvorki of heitt né kalt. Andrúmsloftið er alveg yndislegt, Fólk er afslappað og í góðum fíling. Og það er ekkert smá góð lykt hérna, ilmar allt af gróðri og smá svona mykju lykt, rétt keimur. Þetta fylki skaust upp í fyrsta sæti hjá mér. Nýtt á listanum og í beint á toppinn.

Comments:
Oregon verður kannski næsti stopp hjá ykkur hjónum? ég kem örugglega í heimsókn þangað til að upplifa þennan fallega stað!!
 
Vá hvað þetta hljómar allt vel. Bjargar andliti Bandaríkjanna í bili :o)
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?