21.12.06
Skötuveisla nr. 1
Þegar ég flutti til Danmerkur í annað sinn ákvað ég að byrja að borða kæfu. Kæfa í Danmörku er nefnilega eins og skyr hérna heima og mér fannst eitthvað svo fáránlegt að borða ekki þjóðarréttinn í því landi sem ég var í. Þannig atvikaðist það án þess að ég áttaði mig á því að ég stóð í nettó fyrir framan kælinn, teygði mig í eitt leverpostei stykki og setti það í körfuna. Þegar ég kom heim smurði ég eina rúgbrauðssneið með kæfu, horfði á hana á disknum og bara lét vaða. Og hvað? Eins og allir vita sem kunna að meta rúgbrauð með kæfu var það einstaklega ljúffengt. Síðan þá hef ég byrjað að borða slátur og fyrir kannski 3 árum byrjaði ég að borða skötu. Fyrst hjá tengdaömmu minni heitinni í Hafnafirðinum, síðan hjá ömmu Rúnu og afa í Stóró og núna síðast hjá minni eigin móður. Í gær. Ég verð að viðurkenna að það er mun erfiðara að læra að meta skötu en kæfu. Þetta er svona prósess. Bragðlaukarnir manns átta sig engan veginn á því af hverju maður setur hvern bitann í munninn á eftir öðrum. En það þýðir ekkert að gefast upp, maður getur ekki látið bragðlauka vera allsráðandi, andspyrnan hefur vopnast og er í vígahug. Núna hlakka ég bara til að spreyta mig í fjórða skipti á Þorláksmessu.
Comments:
<< Home
Alls ekki gefast upp á skötunni. Ég byrjaði að borða hana fyrir fáum árum síðan og núna er þetta orðið að hefð hjá mér.
Hæ! Gaman að þið séuð heima um jólin. Endilega að hittast. Mig langar rosalega til að bjóða ykkur í mat. Hvernig er 28. des? Call me!
Skrifa ummæli
<< Home