12.1.06

Vöggu til vöggu

Er slagorð tveggja frumherja, þeirra William McDonough og Michael Braungart. Þeir eru upphafsmenn nýrrar iðnbyltingar sem er á frumstigi í dag. Þessi bylting er frábrugðin þeirri sem átt sér stað á nítjándu öld. Núna er markmiðið að gera jörðina að betri hreinni stað frekar en mengaðri. Í staðin fyrir verksmiðjur með slæm skilyrði fyrir starfsfólk, menga mikið og framleiða vörur úr hættulegum efnum sem munu enda í ruslahaug eftir skamma lífstíð, þá hanna þeir umhverfi sem hefur jákvæð, vistvæn, heilsusamleg áhrif.

Hvað þýðir þetta? Jákvæð, vistvæn, heilsusamleg áhrif? Tökum dæmi: textílverksmiðja í Sviss. Var á barmi örvæntingar vegna þeirra háu gjalda sem hún þurfti að borga ríkinu fyrir að menga vatn og þess kostnaðar sem fylgdi því að ferja úrgang, (afklippur af textíl) sem hvorki mátti brenna né grafa því í honum var of mikið af hættulegum efnum, til Spánar, þar sem reglugerðir þetta varðandi eru slakari. Vefnaðvörurnar sem þarna voru unnar, í þessari dæmigerðu vefnaðarverksmiðju í Sviss, innihéldu of mikið af skaðlegum efnum til að fýsilegt væri að grafa þær. Allt í lagi var hinsvegar að sauma úr þeim föt á fólk.

Menn fóru að hugsa um þessar undarlegu staðreyndir og fengu félagana McDonough og Braungart í lið með sér til að athuga hvort hægt væri að gera breytingar á rekstrinum til að bjarga starfseminni. Haft var samband við aðila sem seldu verksmiðjunni litarefnin og uppúr dúrnum kom að af þeim mörg hundruð litarefnum sem verksmiðjan keypti voru aðeins 16 sem þóttu skaðlaus samkvæmt stöðlum. Einnig kom í ljós að þessi 16 litarefni nægðu til að blanda alla þá liti sem sóst var eftir. Aðrar breytingar voru líka gerðar til að gera framleiðsluna fullkomlega mengunarlausa.

Niðurstaðan var sú að vatnið sem fór út var jafn hreint og það sem kom inn þannig að nú er því bara dælt í hring. Afklippurnar eru settar í dunk þar sem þær verða að mold svo ekki þarf lengur að ferja þær úr augsýn. Starfsemin er hagsælli og starfsfólkinu líður betur nú þegar vinnuumhverfið er hreinna, ekki mettað af hættulegum efnagufum af litarefnum.

Þessi breyting átti sér stað á innan við sex mánuðum. Það var ekkert sérstaklega erfitt við hana. Það eina sem þurfti var að láta sér detta það í hug að menga minna. Ég er svo heilluð af þessum mönnum, þeir eru sannkallaðar hetjur, samt eru þeir bara venjulegir gæjar með ofur-lógískar og eðlilegar hugmyndir. Þetta hljómar ekki út í hött: "Yo! Hættum að gera vatnið ódrykkjarhæft og loftið óöndunarlegt. Höldum frekar náttúrunni óspilltri og búum þannig um að börnin okkar drepist ekki úr krabbameini".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?