21.5.05

Víkingar og tré

Í barnaskóla lærir maður að víkingarnir sem byggðu fyrstir Ísland voru miklir ribbaldar og huggu öll tréin á fyrstu 200 árum Íslandssögunnar. Þess vegna var Ísland einu sinni skógi vaxið, en núna eru bara örfá strá hér og þar, varla tré að sjá.

Núna skilst mér að málið sé ekki svona einfalt. Víkingarnir eða Norðmennirnir, þeir komu víst fram við landið eins og þeir voru vanir heima hjá sér. Þeir hugsuðu ekki "ahh, hér er nýtt land þar sem nóg er af öllu og við getum bara gert eins og okkur sýnist" sem er myndin sem maður fær í barnaskóla. Málið er að Ísland var bara miklu brothættara en Noregur og Svíþjóð, og landið höndlaði alls ekki sömu meðferð.

Og í dag þykja Íslendingar einstaklega umhverfismeðvituð og landgræðslusinnuð þjóð. Þegar ég heyrði það þá fannst mér nú eins og að það gæti ekki verið, við erum ekki mikið skárri en flestir aðrir, hendum rusli útí náttúruna og nennum ekki að taka strætó. En ef maður hugsar um það þá er annarhver maður með sumarbústað þar sem hann reynir að hjálpa litlum hríslum á legg og síðan eru það lionskúbbarnir sem sá grasi til að stöðva uppblástur og landvernd er með heilmikið prógram. Niðurstaðan mín er því sú að það gæti alveg verið að Íslendingar séu óvenju umhverfissinnaðir, en bara þegar kemur að landgræðslu. Það er nú alveg ágætt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?