13.4.05

Þegar neyðin er stærst...

Ég opnaði augun og sá að klukkan var 10:29 (við höfðum verið á skralli með Jesper nokkrum frá Aarhus og ekki komið heim fyrr en klukkan 3 um nóttina) og það kom til mín að tími sem ég verð að mæta í byrjar klukkan 10:30. (Maður myndi ekki halda að það ætti að vera vandamál að koma sér í þennan tíma...) Í einni hendingu kasta ég nokkrum spjörum yfir mig, hendist í rúlluskautana og þeyti af stað eins og heil fjölskylda væri í lífsháska. 10:37 og ég sat í skólastofunni, eiturhress eftir morgunleikfimi dauðans.

Það er nú frekar ljúft að vera í það áhugaverðum kúrs að maður veður eld og brennistein (eða annað "substantially equivilent") til að komast í hann. Það eina sem var að ég hafði ekki borðað morgunmat né tekið með mér nesti og í öllum hamagangnum gleymdi ég að hafa með mér veskið. Og ég er í tímum samfleytt allan daginn á miðvikudögum. Frekar ómögulegt þar sem ég vildi ekki sleppa neinum tíma og var farin að verða frekar svöng. En þar sem ég stend milli stríða að laga mér te kemur strákur sem ég kannast lítilega við og tekur allan vafa af því hverra þjóða hann er með því að kasta á mig "Hi Tina, how are you?" Ég er alltaf í stökustu vandræðum með það hvernig ég á að bregðast við þessu kurteisishóti en næ að stynja upp "ehh, yes, ehh.. fine, thanks" En ég var náttúrulega langt frá því að vera "fine" og ég er hrikalega léleg í því að ljúga og hann áttaði sig eitthvað á því... Eftir að við skiptumst á nokkrum setningum til viðbótar er ég komin með rjúkandi núðlusúpu og stórt glas af kakói.

Ég get vart hugsað mér betri endir á sögu en "... rjúkandi kakó". Þótt að mér finnist kakó alls ekki gott í raunveruleikanum finnst mér fátt betra hugmyndafræðilega. Ég hugsa að þetta hafi eitthvað að gera með að sögur sem eru lesnar fyrir mann á krítísku tímabili þar er "gott" = fransbrauð með sultu, rjúkandi kakó, og annað í þeim dúr.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?