8.3.05

Herbie Hancock

Var með snilldartónleika í gær sem við Óli vorum svo heppin að komast á. Fjórir aðrir voru að spila með honum og öll voru þau undrabörn sem héldu sína fyrstu tónleika fyrir 12 ára aldur. Herbie var 11 ára að spila með Miles Davis í þessu sama húsi og í gær. Terri Lyne Carrington sem er kona (!) spilaði á trommur og hún var ekkert smá kúl. Jafn kúl og Yoko sem er japönsk kona sem ég held ég hafi skrifað um áður. Þessi kona er búin að spila á trommur síðan hún var 7 og gerði það svo áreynslulaust að það var þvílíkur unaður að horfa á hana. Hún er líka læknir.

Einn kall, Michael Brecker, spilaði á ewi. Electronic wind instrument. Það var líka ótrúlegt. Þetta tæki er tengt við tölvu og getur gefið frá sér hvernig hljóð sem er milli himins og jarðar. Hann tók smá sóló í hléinu, fyrst hljómuðu ambient tónar, svolítið eins og draumur bara, síðan komu hljómar eins og úr didgeriedoo og síðan eins og hann væri að spila á skoska pípu, hvað heitir hún nú aftur.. Ég get náttúrulega engan veginn lýst þessu nógu vel. Allt í einu var komin heljarinnar mikil sinfónía og allt að gerast, taktar hér og þar, hljóðfæri og hljómar úr öllum heimshornum og svaka fönkí fílingur. Þetta var ótrúlegt. Hann var ótrúlegur.

Þessir tónleikar voru svaka skemmtilegir. Það var líka skemtilegt að vera í sinfóníu húsinu. Það er ekkert smá stórt. Við vorum náttúrulega efst, í galleríinu sem var svo bratt að maður þurfti að ríghalda sér í handrið þegar maður gekk niður að sætunum og síðan fyrir framan hverja sætaröð var handrið. Við áttum engann pening til að kaupa okkur vínglas eða bjór eins og fína fólkið en það var boðið upp á hálstöflur í anddyrinu svo við tókum nokkrar/fullt. Síðan komst ég að því að það er til þess að maður þurfi ekki að hósta á sýningunni. En mér fannst gaman að fá brjóstsykur því það minnti mig á það þegar í gamladaga maður fór í leikhús með ömmu Bíbí, þá fékk maður svona brjóstsykur, stundum lakkrís. Jæja, best að reyna að halda áfram með ritgerð um ís complex (ekki djók).

This page is powered by Blogger. Isn't yours?