15.3.05

erfðabreytt korn

Hér í bandaríkjunum, ríkjum hins frjálsa manns, getur maður fengið einkaleyfi á gen. Það er alveg með ólíkindum hversu ósvífinn þessi geiri er. Sagan er þessi.

Það eru fyrirtæki sem erfðabreyta fræum til þess að þau standist pestir eða geta dafnað í þurkum. Þessi fyrirtæki fá síðan einkaleyfi á erfðabreytta fræinu, þau segja að þessi gen sem þau bæta inn í fræin séu þeirra eigin gen, þeirra hugmynd og því þeirra eign. Síðan kaupa nokkrir bændur fræ frá þeim. Rækta kornið eða maísinn og ekkert mál. Nokkur fræ fjúka með vindinum eða fuglar borða þau og þau enda á ökrum annara bænda. Bænda sem ekki vilja og ekki kaupa þessi erfðabreyttu fræ. Menn frá fyrirtækjunum ganga um akra, í leyfisleysi og án vitundar bændanna sem eiga akrana, tína nokkur fræ og athuga hvort þau séu erfðabreytt. Ef svo er þá kæra þau bændurna fyrir að vera með "þeirra" fræ á ökrunum sínum. Hundruðir svona kæra eru í gangi núna. Kanadíski hæstarétturinn komst að þeirri niðurstöðu að ef bændur eru með erfðabreyttar plöntur á sínum ökrum án þess að hafa keypt fræin, þá eiga bændurnir að borga gena-fyrirtækjunum sekt. Sama hvernig á því stóð að þessar plöntur enduðu á þessum ökrum.

Bandaríkin vilja búa til og að ríkjandi séu alþjóðleg lög um einkaleyfi. Þannig að ef eitt fræ slysast til að berast til Suður Ameríku eða hvert sem er, þá getur fyrirtækið sem "á" þessa tegund af fræi, lögsótt bóndann eða hvern það nú er sem á landið.

Þetta er svo ótrúlegt að það er engu lagi líkt. Bændur eru harmi slegnir og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Margt (eða hlutfallslega fátt) fólk er líka að átta sig á þessum undarlega veruleika.

Það sem meira er að upp koma tilfelli þar sem fólk fær bráðaofnæmi eftir að hafa borðað mat sem er búinn til úr erfðabreyttu korni. En hérna þá þarf ekki að merkja vörur sérstaklega sem eru úr erfðabreyttu hráefni. Það er ekki aðeins til þess að hefta neytendur við að velja sjálfir, heldur líka til að gera það erfitt fyrir fólk til að rannsaka heilsufarsafleiðingar þess að neyta erfðabreytt mats.

Ekki nóg með það heldur þá segja fyrirtækin það beint út að þau eru ekki ábyrg fyrir því hvort afurðin sé æt eða ekki. Það er á ábyrgð stofnanna eins og heilbrigðis og manneldisstofnanna að komast að því hvort kornin sem verða til eru æt. Ég er ekki að búa þetta til!

Ég hafði engan veginn áttað mig á þvi hversu alvarlegt þetta mál er. Og listinn yfir alvarleg mál af þessum toga tekur engann endi. Til þess að bændur geta ekki notað fræ sem verða til þegar kornið er fullþroska þá er búið að finna upp nýtt gen sem kallast "termination gene". Það leiðir til þess að fræ sem verða til geta ekki frjóvgast og þvi er ekki hægt að nota þau næsta ár. Þá þarf bóndinn að kaupa nýjan skammt af fræjum frá fyrirtækinu. En hvað gerist ef þetta "sjálfsmorðsgen" kemst út í flóruna? Það er ekki hugsun sem maður vill hugsa til enda.

En það eru ekki bara neikvæðar fréttir sem koma frá þessum fæðu geira. Á seinustu tíu árum hefur neysla og framleiðsla lífrænt ræktaðs mats aukist margfalt. Meira að segja heilt fylki tók höndum saman og gerði það að lögum að fyrirtæki megi ekki eiga akra eða bóndabæi í því fylki. En það er Nebraska. Þar verða bóndabæir að vera í eigu fjölskyldu. Það verður samt að stöðva þessa klikkuðu menn sem stýra þessu landi. Ég vona bara að dollarinn haldi áfram að falla og olíuverð haldi áfram að hækka.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?