6.5.04

Ný ásýnd bloggs

Ákvað að gefa blogginu smá andlitslyftingu, ekki of mikla þó, vil ekki að það verði of gott með sig... Þannig að ég setti bara inn uppáhalds litinn minn og breytti stöfunum aðeins. Ég komst að því að bloggið leit miklu betur út á makka, en þar sem flestir eru með pc vildi ég reyna að gera það huggulegt fyrir pc. Er þetta ekki bara ágætt?

Í morgun fór ég í nudd. Það var yndislegt. Ég þekki nefnilega stelpu sem er nuddari og síðan var ég með höfuðverk meira og minna alla síðustu viku svo ég ákvað að prófa að fara í nudd. Þetta var alveg ótrúlegt. Hún vissi alltaf nákvæmlega hvernig mér leið. Hvaða vöðvar voru aumir og hversu aumir og ég veit ekki hvað. En þetta var svaka þægilegt og ég er alveg ný manneskja á eftir.

Ég fór líka aðeins í leikfimi í dag. Gott að vera vísindamaður, þá er maður svo flexible og getur gert svona sniðuga hluti. Allavegana, þegar ég kom aftur á skrifstofuna fórum við Olga, skrifstofufélaginn minn, að tala um æfingar, hún er leikfimis eða eróbikk eða eitthvað kennari. Ég fór að segja henni að ég væri að reyna að æfa efri búkinn (fyrir klifrið). Þá fór hún að segja mér frá einu æfingunni sem maður þyrfti að gera til að æfa efri búkinn. Og hún er að standa á höndum, og ekki nóg með það heldur gera "armbeygjur" þannig, á hvolfi. Ha ha, ég sé mig nú bara í anda veltandi útum allan leikfimissalinn, get varla gert armbeygjur á gamla mátann, hvað þá... jæja, mér fannst þetta frekar fyndið. En Olga er líka frá Rússlandi... Þar eru menn örugglega snar brjálaðir, gera armbeygjur á hvolfi og eitthvað.

Það er samt súper gott fyrir Íslending og Rússa að deila skrifstofu. Ekkert svona kurteisiskjaftæði eins og hjá könunum. Það nær nú engri átt hvað það er eitthvað mikið af óskrifuðum reglum hjá þeim. Eins og ég var að spjalla við eina stelpu um daginn á kaffistofunni. Og það var bara svaka huggulegt. Síðan förum við eitthvað að vinna og eftir 5 mín fer ég eitthvað fram og þá hitti ég hana aftur og við eitthvað segjum "hæ" og síðan segir hún "how are you" og ég alveg steinhissa á þessu, við vorum að enda við að tala um hvernig okkur liði á kaffistofunni. En ég segi samt "bara fínt" og tilbaka "how are you" og hún alveg "fine thank you". Ég bara fatta þetta ekki. Síðan þarf maður að segja "excuse me" ef maður fer inn í "persónulega plássið" hjá fólki, það er svona meters radíus. Geðveikt þreytandi. En við Olga erum ekkert í þessu, við spjöllum alveg saman en segjum aldrei sorry og excuse me, mjög notalegt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?