15.4.04

Rólegheit á ný

Eftir klifrið freistuðum við gæfunnar í Las Vegas. Mér fannst LV ekki svo spennandi þannig að ég nenni ekki að skrifa um það. Hins vegar var gaman að koma aftur til LA, Árdís og Dónald höfðu farið til Mexico á sama tíma og við fórum útum allt og við komum öll heim á saman tíma. Við höfðum það reglulega huggulegt, fengum osta og kavíar og þau opnuðu svaka fína rauðvínsflösku. Síðan var ekki um annað að ræða en að taka aðeins í spil og það endaði á því að við spiluðum póker fram á morgun. Ekki slæmt.

Þó svo við hefðum síðan farið heim til okkar í Chicago þá tók fríið alls engan endi. Gummi kom í heimsókn nokkra daga eftir að við komum heim og við fórum með hann útum allt. Í mjög marga og langa göngutúra. Hann hefur nefnilega svo gaman af því að ganga. Ég fór með hann að sjoppa og hætti ekki fyrr en drengurinn var kominn með hvorki meira né minna en 7 buxur og enn fleiri boli og peysur. Við fórum líka á söfn og garða, í passover mat og náðum í rif suðurfyrir en það er ekki hættulaust. Á föstudaginn langa komu síðan Valur frændi og Björg hans unnusta. Þeim sýndi ég um alla Chicago og við fórum öll á Navy Pier sem er svaka stórt túrista-thing en ekkert mjög spennandi. Við borðuðum á Eþíópískum veitingastað sem er einn besti veitingastaður sem við vitum um hérna, Í John Hancock á kokteilbarinn og síðan skoðuðum við hús eftir Frank Lloyd Wright en það er hverfi með fullt af húsum eftir hann hérna. Ég teymdi þau síðan að sjálfsögðu með mér að klifra og við fórum í mollið og á jazz búllu sem aumingja Óli missti af. En í gær fórum við á Kólumbískt steikhús og síðan á leikrit eftir á. Maturinn var æðislegur og leikritið alveg frábært. Það var ádeila á bandarískt samfélag og svo ógeðslega fyndið að það frussaði úr nefinu á okkur margarita. En við fengum nefnilega könnu af margaritu sem var ekki til að skemma fyrir.

Nú eru allir gestirnir haldnir heim á leið og komin ró í kotið. Ég held að allir skemmtu sér konunglega, allavegana gerði ég það, og ég vona að þið komið aftur seinna og líka allir sem eru að lesa þetta. Það er svo gaman að fara til útlanda og að fá fólk í heimsókn. Þá gerir maður loksins það sem mann langar til að gera og skoða og sjá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?