1.4.04

Grand Canyon

Næsti dagur. Var vakin með harðri hendi fyrir allar aldir af elsku manninum mínum sem er vanur því að sofa í 3 tíma á nóttu því það var um að gera að fara að drífa sig af stað að sjá stærsta gljúfur í heimi. Allur dagurinn fór í keyrslu því þó að það heiti 6 tíma akstur milli LA og GC þá er ekki möguleiki fyrir okkur að keyra 6 tíma samfleitt. Við stoppuðum svona af og til á leiðinni til að skoða Mohabe eyðimörkina, þurftum reyndar varla að stoppa til þess, maður keyrir á gegnum hana í fleiri klukkutíma á leiðinni. En það er gaman að fá smá ´hands on´ eins og Kaninn segir. Á miðri eyðimörkinni er líka ungt hraun svo við stoppuðum aðeins til að skoða það. Það var gaman að sjá eitthvað sem maður þekkir en sem var samt öðruvísi útaf sandblæstri ályktuðum við. Á leiðinni stoppuðum við líka í "bæ" úr DAOC og ég myndaði Óla þar í bak og fyrir. Man ekki alveg hvað hann heitir en Óli sendir hverjum sem vill mynd.

Okkur tókst ekki alveg að komast að Miklagljúfri svona í fyrstu atrennu. Við gistum frekar á móteli í bæ sem hefur séð fífil sinn fegri, þegar Highway 66 var og hét. Það eru 40 ár síðan hann var meira og minna lagður niður svo pleisið var frekar ... gamaldags. En við létum það ekki á okkur fá.

Eftir góðan morgunmat undir berum himni héldum við loks af stað. Það er nú ekki hægt að lýsa þessu náttúrufyrirbrigði með orðum svo ég ætla bara ekkert að reyna það mikið.

Við tjölduðum á skika sem við fundum loks. Hér þarf maður yfirleitt að finna sér "skika" til að tjalda á á tjaldstæðum. Það er ekki svona grasvöllur eins og heima þar sem maður bara tjaldar þar sem er pláss. Heldur eru fullt af númeruðum skikum með bílastæði og maður verður að keyra í gegnum allt bílastæðið til að finna einn lausan. Getur verið tricky. Fórum síðan að sofa, sem var heldur ekki auðvelt því það er ekki eins og það sé gras á þessum skikum. Bara sandur og möl. Örugglega aðalástæðan fyrir öllum þessum RV-um. Skiptir engu. Það svakalega var að Óli hafði lesið það í bók að sólarupprásin á þessum stað væri ómissandi.

Þökk sé sandinum og mölinni vorum við í litlum vandræðum með að vakna FYRIR sólarupprás sem er um 6 leytið. Engin vekjaraklukka, ekkert wake-up call, ekkert. Það var mjög gaman að sjá sólina koma upp. Hvernig gljúfrið var smám saman baðað sólinni, það var mjög skemmtilegt. Síðan var ekki verra að klukkan átta vorum við búin að borða morgunmat, pakka saman tjaldinu og öllu og lögð af stað í göngu meðfram brúninni. Reyndar vorum við þá búin í göngunni (20 km) og uppgefin rétt rúmlega hádegi en það var samt bara ágætt, þá var nægur tími til að slaka á.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?