19.9.13

Skömmuð á róluvellinum

Við vorum að fara, ég og Damaris, þegar kona kemur upp að okkur og spyr mig hvort ég eigi þetta barn.  Hún bendir á Eddu.  Já segi ég, ég á þetta barn.

Jah, hún var bara upp um allt, að taka í kerrurnar og klifra upp á bekkina.  Við vorum allar að horfa á hana.  Hún var bara eftirlitslaus.

Þakka þér fyrir að segja mér frá því segi ég og held áfram að setja Eddu í kerruna sína.  Hún stendur sem fastast og heldur áfram með ræðu um að ég verði að fylgjast með henni hverja sekúndu.

Hún heyrði í þér og þakkaði þér fyrir sagði Damaris þá ákveðin.  Konan varð hvumsa og snerist á hæli.

Ég var alveg steinhissa á þessu.  Hef aldrei lent í því að vera skömmuð áður á róluvellinum.  Af barnapíu.  Það er óþægilegt þegar ókunnugt, eða jafnvel kunnugt, fólk ásakar mann um að passa ekki nógu vel uppá börnin sín.

"Ahh, the joys of parenthood."  Þannig afgreiðir kaninn svona áreiti.

11.9.13

Þak yfir höfuðið

Við fundum æðislega íbúð.  Hún er svo fín.  Það var opið hús og ég fór að skoða.  Ég vissi áður en ég fór að við myndum vilja þessa íbúð.  Myndirnar voru það góðar.  Við Edda vorum mættar korter í opnun og áður en klukkan sló fimm hafði myndast smá þvaga fyrir framan húsið.  Við skoðuðum íbúðina og hún var æðisleg.  Ég sagði við dömuna að við vildum gjarnan fylla út umsókn og hún skrifaði niður upplýsingarnar mínar.

Síðan förum við á róló og ég bíð eftir því að hún sendi mér umsóknina.  Er eins og barnfóstrurnar, skoða símann á tveggja mínútna fresti og loks skrifar hún að maður hafi boðið $200 hærra verð og þau hafi ákveðið að hækka verðið.  En það var ákkúrat 200 dollurum yfir það sem við Óli vorum búin að ákveða að væri hámark fyrir okkur.  Svekkelsi.  Við spáum í þessu allt kvöldið alveg þangað til við sofnum.  Síðan vöknum við og erum svo sem ekki komin með niðurstöðu en ég sendi dömunni bara póst um að við séum game.  Hún sendir umsóknina strax til baka og segir að við séum númer eitt í röðinni.

Það finnst okkur aðeins undarlegt.  Af hverju er ekki gæjinn sem bauð upphaflega hærri leigu númer eitt?  Er hún að reyna að féfletta okkur?  Óli hringir í hana.  Hún svarar öllum sðpurningunum hans ljómandi vel.  Við sendum inn öll gögnin og skrifum undir.  Svo einfalt var það. Þetta var lang-lang flottasta íbúðin sem ég skoðaði.  Ég satt að segja trúi því varla að við séum að fara að flytja í þessa íbúð eftir tæpar 3 vikur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?