6.1.18

Nýársheit

Gleðilegt nýtt ár!  Nýja árið gekk bara friðsamlega í garð hérna hjá okkur.  Ég sofnaði fyrir miðnætti á gamlárskvöld en náði skaupinu.  Það var algjört dúndur og við skellihlógum að því öllu.  Nýársheitið í ár er að fasta meira.  Ákvað að byrja þetta með stæl og fasta í 3 daga.  Var að pæla í 5 en áður en 3 dagar voru liðnir þá leystist þessi dilemma og endaði með því að vera bara 63 tímar. 

Þetta var svolítið áhugaverð tilraun og skemmtilegt.  Ég er nú samt ánægð með að þetta er afstaðið.  Það var sniðugt að vera með flatan maga eins og súpermódel í einn dag.  Það kom mér á óvart að ég var ekkert svöng þó svo ég borðaði ekki.  Fékk mér bara skeið af lýsi í morgunmat og einn espresso.  Síðan vatn með söltum um daginn.  Eina undantekningin var á degi 2 þá steikti ég lax fyrir dömurnar. Hér fær maður alltaf roð án hreysturs.  Steikt laxaroð er með því betra sem ég veit og þetta steikta laxaroð eftir 48 tíma föstu var það besta sem ég hef á ævinni smakkað.  Stökkt, salt, feitt og sætt.  Það kom mér mest á óvart því það hefur aldrei bragðast sætt áður.  Í tvo daga leið mér bara vel en þegar ég vaknaði í morgun, fyrr en ég hefði kosið, þá leið mér ekkert sérstaklega vel og ákvað bara að slútta þessu frekar en að vera handónýt í allan dag.  Get alveg mælt með því að fasta þó svo það virðist ekki hafa haft þau áhrif sem ég var að vonast til, að lækna mig af kvilla sem er búinn að vera að hrella mig í lengri tíma.  Hefði sennilega þurft 5 daga í það.  Eða 6.  Eða 3 vikur.  Bahh.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?