14.5.19

Júróvisjón 2019

Er þetta epískt eða hvað?  Ég er svo spennt að ég get engan veginn einbeitt mér í vinnunni.  Korter í undanúrslit og Hatari er númer 13 í röðinni.  Ég spái okkur náttúrulega framgöngu.  Við verðum örugglega ofarlega með Ástralíu og Kýpur, kannski Póllandi og Grikklandi.   Þetta er í undankeppninni.  Í aðalkeppninni, þá verð ég að viðurkenna að ítalska lagið Soldi er í uppáhaldi hjá mér.  Þessa stundina allavega.

Júróvisjón er í mínum huga með því besta sem er að gerast í heiminum í dag.  Ég er svo ánægð að við (mannkyn og þeir sem stofnuðu Júróvisjón og héldu henni gangandi.. þar sem aðdáendur eru náttúrulega mikilvægasti flokkurinn) skyldum vera með þessa keppni í allavega 60 ár.  Þegar hatrið hefur sigrað og heimurinn brennur upp, þá megum við eiga það að við héldum Júróvisjón: tæpur milljarður manns fylgdist með þessari keppni og í nokkra daga gleymdi fólk ágreiningi sínum og naut listarinnar.

10.5.19

Baby! Why don't you just meet me in the middle?

I'm losing my mind - just a little.  Baby!! Why don't you just meet me in the middle!? I'm losing ... alveg spontaneously byrjuðu systurnar að syngja þetta þegar við lentum í Chicago eftir níu tíma flug frá Madrid.  Fólkið í vélinni virtist nokkuð sammála.  Mér fannst þetta mest fyndið en líka aðeins vandræðalegt vegna þess hvað er fólk að hugsa annað en hverskonar mamma er þetta, lætur börnin óafskipt heilu dagana með rænulausa popptónlist glymjandi og barnið, rétt þriggja ára..

Ásta er svo sæt þegar hún talar.  Livúbitt segir hún svaka mikið núna.  Ég veit kannski að þetta er ekki í boði en ég ætla bara samt að fá bara livúbitt.

Þetta ferðalag var algjör bilun en það gekk samt svaka vel.  Börnin sváfu bara í ferðafötunum og vöknuðu við að þau voru að labba útí bíl klukkan hálf fimm.  Við komumst á flugvöllinn og fremst í röðina sem betur fer því tölvukerfið réð ekki við að tékka inn fjölskyldu þar sem börnin eru með annað þjóðerni en foreldrarnir og aðrir gestir sem höfðu valið röðina okkar voru að bilast og böggast í aumingja starfsfólkinu meðan það (fólkið) gaf okkur illt auga.  Sólveig svaf alla leiðina en Ásta og Edda voru dúndur sprækar í þessu flugi til Madrid.  Þegar við lentum í Madrid byrjuðum við að hlaupa og hlupum í hálftíma yfir á næsta terminal með lestarferð og við enda gangsins æpti kona á samstarfskonu sína sem hljóp af stað æpandi fimm til Chicago og við rétt komumst inn í vélina áður en þeir skelltu hurðinni á eftir okkur.  Svaka stress en sem betur fer voru allskonar huggulegheit hjá Iberia með stálhnífapörum og skjáum.  Þegar við lentum í Chicago tók smá dæmi við þar sem Bandaríkjamennirnir höfðu verið tékkuð inn með íslensku vegabréfunum en mátti greiða úr því.  Allt í allt var þetta 17 tíma ferðalag en gekk bara furðuvel. 2.5.19

Kanarí

Það varð úr að ég komst til Kanarí.  Ég frétti fyrst af þessum stað í æsku þegar amma og afi fóru að fara eftir áramót á Kanarí.  Ég sá afa Sigga alveg fyrir mér í Las Palmas á Gran Canaria með öllum gömlu köllunum.  Við gistum eina nótt þar en fórum síðan inn í landið að skoða okkur um.  Hlykkjóttari vegi hef ég aldrei áður séð.  Það voru bara beygjur.  Við höfðum það ekkert smá gott þarna.  Gistum í Tejeta og fórum til Galdar að skoða fornleifar frá fólkinu sem var þarna áður en Spánverjar komu.  Borðuðum heilmikið tapas og fórum í vínsmökkun.  Þetta var svaka ævintýri.
Stelpurnar hlupu uppá þessa hæð.

Við flugum með Binter á Fuertaventura sem er nú yfirlíst uppáhaldsflugfélag systranna.  Tveir sleikjóar á mann, tvö súkkulaði fyrir börn, eitt fyrir fullorðna, vatn að drekka og innpakkaður blaut-klútur til að þvo sér.  Ótrúlegur lúxus. 


Það var æðislegt á Fuertaventura.  Best af öllu var náttúrulega að vera með ömmu og afa, Sillu og Þórði en ekki síður að leika á ströndinni og njóta þess að vera á lúxus hóteli með næringu í sturtunni og hlaðborð með kynstrin öll af pasta og desertum.


Landslagið er alveg gjörólíkt á við Gran Canaria.  Það er næstum því engin rigning.  Svaka mikið rok.  Fuerteventura er líka elst og með minnstu nútíma eldvirkni, svo hún er ekki svört og hvöss heldur eru fjöllin ávöl.  Að ég tali nú ekki um siglingarnar.  Það var ekkert smá gaman að komast á seglbretti og ég gat æft beach start og notað beltið svolítið.  Ég brunaði þvílíkt og brettið skoppaði á öldunum.  Það er alveg magnað að beisla svona náttúruöflin. Maður finnur það hvað manneskjan er lítilmáttug gagnvart náttúrunni. 

Vikuna eftir keyrðum við til Lanzarote og tókum ferju og það var ekki síður stórkostlegt.  Landslagið er fyrir það fyrsta geggjað.  Sex ára eldgos átti sér stað fyrir 200 árum og fyrir 20.000 árum voru mikil eldsumbrot sem mynduðu margra kílómetra langa hella.  Sagan er ekki síður merkileg.  Listamaðurinn Ceasar Manrique á eiginlega þessa eyju.  Eða kannski eiga eyjaskeggjar honum allt að þakka.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?