21.1.19

Komin aftur í rútínuna

Þetta byrjar nú ekki vel - svolítið mæðulegur titill...  Best ég byrji bara á svekkelsi ársins.  Ég keypti svakalega flott nesti í flughöfninni.  Tótu flatkökur, smjör, 5 dósir af skyri, harðfisk, kókómjólk og kleinur.  Og það er ekki eins og þetta sé einhver afsláttarbúlla þessi sjoppa þarna á flugvellinum.  Nema hvað.  Við vorum komin á svaka góðum tíma.  Við höfum aldrei verið í svona góðum tíma.  Síðast misstum við náttúrulega af vélinni, við komum svo seint á völlinn en núna gátum við sest niður, borðað samlokur og fengið okkur kaffi.  (Og á að vera undirstrikað).  Allavegana, það kom að því að við þurftum að labba af stað og finna hliðið okkar, þetta er heljarinnar göngutúr og ég var valin í sérstaka auka-sprengjuathugun og ekkert nema það en þar sem ég er að setjast í sætið mitt þá fatta ég að við erum ekki með nestis pokann.  Hann varð eftir í kerru sem við fengum lánaða á flugvellinum.

Ég var svo svekkt að ég er bara rétt svo að jafna mig á þessu.  Við þurftum náttúrulega að kaupa hrikalegan mat í vélinni.  Ásta borðaði aðallega tyggjó sem hún síðan skilaði þegar það kom túrbúlans.  En þrátt fyrir allt er þetta besta flug sem við höfum farið í hvað varðar börnin og þeirra hegðun.  Þau stóðu sig ekkert smá vel.  Allir eru að eldast og þroskast sem kemur hvað best í ljós á svona 7 tíma flugferðum.  Hú ha.

Við vorum ekkert smá fegin að komast aftur í hversdagslífið hérna í Chicago.  Ég hefði aldrei trúað því hvað mér gæti þótt vænt um grunnskóla Chicago borgar, kennarana og skólakrakkana.  Eða leikskólann.  Hú ha.  Hér í Chicago er brúðuleikhúsahátíð.  Við sáum tvær sýningar um helgina.  Eina svaka skemmtilega frá Sikiley, Pulcinella, og síðan eina svaka skrýtna frá Puerto Rico, the beginning of nothing.  Allur salurinn veltist um af hlátri yfir Pulcinella og síðan klóruðu allir sér í kollinum yfir the beginning of nothing.  Nema Edda, hún gat ekki beðið eftir því að Pulcinella væri búin og elskaði þessa óskiljanlegu og kaotísku sýningu sem enginn skildi upp né niður í. Snillingurinn litli.

Í gær fórum við í svaka skemmtilegt partí með fullt af fólki og Óli spilaði á píanó, maður kom með trommur og spilaði á þær og síðan spilaði David á saxófón þegar hann fékk tækifæri til þess því Edda var svo yfir sig hrifin af þessu hljóðfæri að hún vildi spila á það og fékk það bara.  Hún blés og David stjórnaði tökkunum í Autumn leaves sem hljómaði bara nokkuð vel þangað til hún vildi sjálf stjórna tökkunum og var það ekki ósvipað og the beginning of nothing en allir voru svaka umburðalyndir og þetta var ekkert smá skemmtilegt jam.


Við fórum á skauta um daginn sem var æðislegt.  Þurftum aðeins að bíða eftir því að svellið var slípað.  Ég myndi segja að Ásta er svona í meðallagi spennt fyrir vetrar íþróttum.  Reyndar er hún svakalega spennt þangað til hún prófar þær, þá er hún frekar hissa yfir þessu ado fyrir eitthvað svona fáránlegt.


Og svo ein með langafa og ein á gamlárskvöld svona í lokin.  Gleðilegt nýtt ár!!This page is powered by Blogger. Isn't yours?