28.8.18

Djúpa laugin

Stökk ofan í djúpu laugina.  Er að kenna tvo kúrsa í Loyola á þriðjudögum og fimmtudögum og síðan rannsóknamaður mánudag, miðvikudag og föstudag.  Fyrsti dagurinn í kennslu var í dag og ég er eins og undin tuska eftir þetta.  Krakkarnir voru samt svaka fín og þetta gekk alveg glimrandi vel, sérstaklega miðað við í fyrra.  Þá var ég með 50 mín tíma en núna eru það klukkutími og korter og tvisvar í viku frekar en þrisvar.

Rannsóknavinnan er svakalega spennandi.  Við erum að spá í hvað verður um olíu sem hellist í sjóinn.  Hvernig hún blandast við agnir og dót og sekkur kannski á hafsbotn.  Það er fáránlega spennandi.  Þetta teymi er búið að vera að nota líkanið mitt og nú fæ ég að koma inn og halda áfram með það.

Við fórum í the Dells um helgina og hittum vini okkar Angie og Justin.  Það var æðislegt.  Leigðum svítu á hóteli með vatnsrennibrautagarði og skemmtum okkur konunglega.  Stelpunum fannst þetta fáránlega skemmtilegt. Meira að segja Sólveig sem hefur alltaf farið sér hægt og verið varkár fór bara ein í allskonar stórar rennibrautir.  Edda sýndi mér hrikalegustu brautirnar sem hún hafði farið í með pabba sínum og ég gargaði eins og vitfirringur, ég trúði ekki mínum eigin sönsum með allar þessar ĺóðréttu brautir.  Náði nú ekki að taka margar myndir en hérna erum við á leiðinni heim.
Stelpurnar eru enn á tónlista námsskeiði.  Þær eru að læra á fiðlu og júkalelí, eru í rokkhljómsveit og dansi og ég veit ekki hvað og hvað.  Bara stórkostlegt.  Skólinn byrjar eftir viku.  Edda fer í fyrsta bekk.  Sólveig í preschool og Ásta fer á grænu deildina.  Það er svo ótrúlegt hvað börn stækka hratt.

19.8.18

Ber

Við fjölskyldan komumst aðeins nær því að upplifa alsælu þessa helgi.  Vinir okkar eiga hús á nektarnýlendu og buðu okkur í heimsókn sem við þáðum með þökkum og sáum ekki eftir.  Ég hef aldrei upplifað jafn mikla ást og alúð eins og þarna og börnin skemmtu sér svo vel að ég þurfti að draga þau æpandi í bílinn þegar það var tími til að fara heim.  Við vorum heilmikið í sundi, á ströndinni og á vatninu á kanó og paddleboard.  Það var svo fáránlega chilluð stemmning þarna.  Sannkölluð paradís.

Mér fannst það nú aðeins skrýtin tilhugsun að vera svona mikið innanum nakið fólk, að ég tali nú ekki um karlmenn.  Það er náttúrulega ekkert nema indælt að vera innan um naktar konur en ég hafði ekki mikla reynslu að vera innan um nakta karlmenn.  Í sumar sá ég mann mála mynd með typpinu á sér í sirkus og ég var í nokkra daga að jafna mig á því, mér fannst það eitthvað svo ógeðslegt.  Síðan var myndin seld á uppboði og mér varð óglatt við tilhugsunina um að eignast þessa mynd.  Svo ég get ekki neitað því að hafa verið aðeins uggandi yfir tilhugsuninni eða kannski bara óviss um hvernig ég myndi höndla þetta með alla þessa nöktu karlmenn.  En síðan fékk ég engar neikvæðar reaksjónir og þetta var allt í lagi.

Það var ekkert smá merkilegt að upplifa hvað föt gera mikið til að skerma mann af öðru fólki, líkamlega og andlega.  Um leið og fólk er farið úr fötunum er það orðið jafnara.  Það fyrsta sem maður sér er "hér er önnur manneskja". Ekki "hér er tískumeðvituð manneskja" eða hjólreiðakappi eða sveitadurgur.   Maður er bara þarna í guðsgrænni náttúrunni og sér aðra manneskju í allri sinni dýrð þá getur maður ekki annað en dáðst að sköpunarverkinu og brosað og boðið góðan daginn og manneskjan brosir tilbaka og endurgeldur kveðjuna og síðan fer meður að spjalla um hvað börnin eru falleg og umhverfið fallegt og dagurinn dásamlegur og svo áður en maður veit af er maður búinn að kynnast fullt af nýju fólki og hefur ekki liðið jafn vel í lengri tíma.

11.8.18

Síminn í fataskápnum

Ég gleymdi símanum mínum inní fataskáp.  Á Íslandi.  Svo núna fer ég bara með kyndilinn útá róló.  Það er reyndar miklu betra því ég er að lesa East of Eden eftir Steinbeck sem er svo sérstaklega indæl.  Ekki saman að líkja við að lesa um pólitík í New York Times.  Í gær lýsti Edda því yfir að hana langaði í skemmtigarð.  Mamman, alltaf reiðubúin að koma óskum í framkvæmd, skipulagði ferð í Maggie Daley garðinn.  Við löbbuðum á lestarstöðina, tókum lest og löbbuðum síðan í garðinn með viðkomu í Cultural Center að kíkja á glerlistaverk og svona.  Þetta er rúmlega klukkutíma ferðalag á fjögra og sex ára gönguhraða.  Mér fannst aðeins eins og fyrst ég er ekki með síma og google er ekki að fylgjast með leiðinni okkar þá værum við ekki að fara.  Síðan tók ég náttúrulega enga mynd sem undirstrikaði þessa tilfinningu.  Svolítið skrítið.  Aðeins einmannalegt en líka frelsandi.

Set því bara inn tvær gamlar.
9.8.18

Komin aftur til Chicago

Við fórum í fimm vikna sumarfrí heim til Íslands.  Það var nú bara stórkostlegt.  Svo yndislegt að hitta fólkið sitt og landið sitt.  Stelpurnar nutu sín í botn, stækkuðu og þroskuðust.  Flugið gekk ljómandi vel þrátt fyrir að pabbann vantaði og vorum við svo heppnar að fá alla röðina fyrir okkur.  Sólveig sofnaði fyrir flugtak og síðan hver á fætur annari.Edda og Sólveig voru svo heppnar að fá að fara á hestanámsskeið.  Við fórum í dagsferð, hittum litlu frænkurnar okkar, nutum sveitasælunnar í Flókadalnum og síðast en ekki síst héldum upp á fertugsafmælið mitt í góðra vina hópi á Drangsnesi.  

This page is powered by Blogger. Isn't yours?