13.3.18

Skíðað í Idaho

Við skelltum okkur í alvöru fjölskyldufrí í vorfríinu mínu.  Fórum til Idaho - af öllum stöðum - heimafólk var alveg forviða að við skyldum leggja svona mikið land undir fót til að koma þangað (!!).  En það er einstaklega fallegt þarna, minnti mig á innsveitar Noregs, svo mikill var snjórinn og skógurinn, og fólk alveg sérstaklega indælt.  Óli og Edda skíðuðu alla sjö dagana en við þessar yngri tókum einn frídag.  Stelpurnar fóru í skíðaskóla og lærðu heilmikið, sérstaklega Edda.  Hún var tvímælalaust komin með bakteríuna undir lokin, vildi ekki hætta fyrr en lyftunum var lokað.  Sólveig var spenntari fyrir barnagæslunni og að kósa sig inni með teppi.  Ásta renndi sér aðeins en hún er ívið ung.  Ekki orðin tveggja.  Henni fannst best að láta halda á sér niður brekkuna en fannst svaka sport að vera í skíðaskóm og á skíðum.

Við Óli skiptumst svolítið á að vera í Easy Street.  Það var geggjað að bruna niður brekkurnar, alein, á allskonar nýjum og skemmtilegum skíðum, hreint loft og frelsi.  Svona skíðafrí er bara algjör paradís.  Manni líður svo vel eftir að hafa reynt á sig og andað að sér öllu þessu súrefni.  Við vorum með tvem öðrum fjölskyldum í húsi sem var æðislegt.  Við skiptumst á að elda, börnin léku sér saman og allir nutu sín í botn.  Sólveig átti 4 ára afmæli og var svo spennt og ánægð, elsku litla skinnið.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?