28.10.08

backstory café

Er ekki yndislegt þegar maður uppgötvar sálufélagskaffihús manns? Það er ótrúlegt en satt að hér í Hyde Park er kaffihús sem er betra en öll önnur kaffihús sem ég þekki. Það er slow kaffihús. Allar innréttingar og húsgögn eru endurnýtt eða smíðuð úr notuðu efni. Maturinn er ræktaður á sjálfbæran máta, kaffið keypt frá bóndum útí heimi sem ekki sprauta akra sína með skordýraeitri. Ég náttúrulega elska þetta kaffihús í botn.

Hér er ég búin að slaka á síðan ég kláraði tímann með krökkunum. Þetta eru þriggja tíma tímar. Svolítið mikið en miklu skárra heldur en undanfarnar vikur þegar ég mætti á labbið klukkan átta og var að undirbúa þangað til þau komu klukkan hálf tvö. Síðan tóku verkefnin svo langan tíma að þau voru ekki farin fyrr en um 6-leytið. Þá var ég alveg uppgefin. Í dag var æfing með tölvulíkan, minn tebolli, akkúrat.

27.10.08

My first coffee

Einu sinni átti Sunna systir mín tæki sem hét my first sony. Það var þegar hún var að uppgötva heim tækja og tónlistar. Skrifstofufélagi minn er einmitt að ganga í gegnum svipað tímabil. Með vestrænan mat. Um daginn var það brauð. Í dag er það kaffi.

Ég bjó til espresso bolla fyrir hann og þvílíkur svipur, þegar hann smakkaði. Hann trúði ekki sínum eigin bragðlaukum. Hélt ég væri að djóka. Svo ég stakk upp á því að hella smá vatni, búa til americano. Ekki fannst honum það bæta mikið svo hann jós nokkrum kúfuðum skeiðum af sykri. Trúði því ekki að mér þætti þetta gott. Tjáði mér að ég hlyti að vera svaka háð kaffi. Ég jánkaði því.

24.10.08

Það eru líka álfar í Chicago

Í Hyde Park. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Núna, rétt í þessu. Ég er komin í náttfötin, á leiðinni í rúmið. Ég stend á gólfinu í svefniherberginu, set gleraugun á kommóðuna, nudda augun svolítið með hnúunum. Nudda eina litla stýru í burtu. Læt hendurnar síga, opna augun og horfi. Beint framfyrir mig.

Þetta augnablik var ótrúlegt. Það sem ég sá. Mynd, hangandi í gullramma. Stelpa að dansa. Draumar flökta umhverfis hana. Blýantsteikning. Dekkri en mig minnti. Fallegri.

Lögreglumennirnir og tax payers dollars þutu í gegnum huga minn. Og hvernig komst huldufólkið til Chicago? Flaug það? Í flugvél eða á hestum? Jafnast kalksteinn á við gosberg? Tala þau íslensku eða eru þau búin að skipta yfir í ensku?

22.10.08

Brauð

Ég er komin með nýjan skrifstofu félaga. Hann er skiptinemi frá Kína og mjög indæll. Í dag sagðist hann hafa tekið eftir því að ég borða alltaf eitthvað sem líkist grjóti. Virðist vera hart og hálf óætt. Ég sagði honum að það væri brauð og bauð honum að smakka. Smurði smjör og sultu fyrir hann.

Það er eitthvað alveg sérstakt við það að horfa á fullorðinn mann borða brauð í fyrsta sinn. "hmm, hörð skorpa en bragðgóð.. smjörið aðeins salt og feitt.. sultan sæt." Hann var bara ánægður með upplifunina. Ég held að ég hafi gefið honum góðan inngang að heimi smurðs brauðs.

19.10.08

I am that terrorist

Mig langar bara að setja inn tvö lög sem ég er svaka hrifin af þessa dagana. Tékkiði á þeim. Þetta er stutt, líka vídjó. Z-trip/ObamaMix.

Annars er ekkert að frétta. Mig langar á Madonnu tónleika en ég þekki engann í Chicago sem langar. Það er líka aðeins dýrt. Kannski fer ég bara ein.

15.10.08

Tintinnid


er lítið sætt dýr sem býr í sjónum. Það er míkró-dýrasvif, sem borðar svifþörunga, bakteríur og eiginlega allt sem það finnur og er minna en það.

11.10.08

Yes we can

Þessar kosningar fjalla ekki um Obama. Þær fjalla um bandarísku þjóðina. Hér í New York er mikið stuð. Við Óli elduðum alveg stórkostlegan kvöldverð. Kræklingar voru í forrétt, sjávarrétta pasta í aðal, núna er komið að ostunum og síðan er kökusneið frá Baltazar sem við komumst kannski ekki í. En það er allt í lagi.

We cannot wait.

Obama og Michelle verða mest kúl forsetahjón EVER. Ég hlakka svo til þess þegar þau flytja inn í hvíta húsið.

En núna get ég varla beðið eftir því að við Óli förum á djammið að sjá herra DJ- Z-Trip. Ég er komin í New York tískuna. Loksins heyri ég systur mína hugsa. En fyrir þá sem ekki vita hvernig hún er þá er hún sokkabuxur einar fata. Ok, ég fylgi henni ekki til hlýtar en svona, um 50%. En, hvernig kemst maður inn á hip klúbb með geðveikum DJ í Róm? Ef maður hegðar sér ekki eins og maður sé í Róm?

9.10.08

Er Davíð orðinn Bush Íslands?

Mig langar ekki mikið að tjá mig um þetta leiðinda mál, en, verð að skrifa eitthvað til að þessi kjánalega mynd sé ekki efst á blaði á ögurstundu. Ég vona að fólk tapi ekki miklum peningum. Eins og ég sé þetta þá brást ríkisstjórnin algjörlega. Leifði bönkunum að rasa út, hömlulaust, án nokkurs aðhalds.

En peningar eru nú ekki allt. Við höfum enn hvort annað, fjölskylduna okkar og náttúru. Eða svona mestmegnis af henni. Ég er sammála honum Geir, um að gera fyrir fólk að halda ró sinni, þetta er bara stormur sem gengur yfir. Áður en við vitum af verður allt komið í gott horf aftur. Ísland er besta land í heimi.

5.10.08

Morgunkaffið

Við sitjum hérna við kisi og drekkum morgunkaffið. Við njótum þess með mismunandi skynfærum, ég með bragði, hún með lykt. Reyndar virðist hún ekki njóta mikils, grettir sig þegar hún þefar. Hún um það. Tók mynd af okkur. Hér er hún.Þessi kisi er svo mikil dúlla. Hún malar eins og barbí sláttuvél þegar hún fær að sitja í fanginu mínu, finnst það svaka notalegt. Finnst svaka notalegt líka að láta klóra sér í hálsakotinu.

4.10.08

Bjarnabófarnir

eða kollegar þeirra brutust inn hjá mér í vikunni. Ég trúði því ekki. Bara trúði því ekki þangað til í gær. Ég kom heim einn daginn og svalahurðin er opin upp á gátt. Það fannst mér einkennilegt en er ekki alveg ótrúlegt því það kemur fyrir að ég gleymi að læsa henni og hún getur kannski opnast af tilstilli vinda og veðra. Nema hvað. Ein myndin mín er horfin. Magdalenu myndin af stelpunni með draumana. Horfin. Og ekkert annað. Ekki tölvan, ekki sjónvarpið, ekki neitt dót sem er miklu eðlilegra að stela.

Ég er búin að vera alla vikuna að átta mig á þessu. Síðan loksins núna áðan ákvað ég að tilkynna ránið og ekki færri en þrír lögreglumenn mæta á svæðið, heim til mín, með skýrslutökugræjur og augabrýr. Mér leið nú aðeins eins og ég væri að eyða dýrmætum tíma þeirra. En myndin er líka dýrmæt. Ég mat hana á þúsund dollara. Sem ég reyndar lækkaði niður í $500-$1000 og sé núna eftir að hafa gert þó það sé kannski sanngjarnara.

Löggumaðurinn ráðlagði mér að hafa gardínurnar dregnar fyrir. Mér lýst nú ekkert vel á það. Kisi var aðeins undrandi á því að hafa svona stöndug karlmenni inni hjá okkur. Hún reyndi að laumast út en löggumaðurinn sá hana og spurði hvort hann ætti að reyna að fá hana til að koma inn aftur. Ég sagði að hann gæti aldeilis reynt það, en hún myndi örugglega ekki vilja koma. Jæja. Það virðist vera að kisi beri meiri virðingu fyrir lögreglunni heldur en mér. Hún hlýddi eins og skot.

2.10.08

Nafn

Smá krísa hérna á skrifstofunni. Ég verð að finna nafn á líkanið mitt. Þetta er farið að verða pínlegt. 4 ára gamalt barn og enn ekkert nafn. Hugmyndir sem ég er með eru:

MoSP (model of sinking particles)
agnir (augljóst fyrir okkur, ómögulegt fyrir þau (plús borið fram "aggneeeeer"))
agg (agnir geðveikt gott)
MoSA (model of sinking aggregates)
MoPS (model of particles sinking)
PaCma (Physical and chemical model of aggregates)

1.10.08

Hmm, verð að skrifa eitthvað...

Ég er aðstoðarkennari í kúrs sem leiðbeinandinn minn er að kenna núna. Efnafræði umhverfisspjalla. Það er ágætur kúrs nema hvað það er svaka stór verklegur þáttur. Og nema hvað. Ég er að stjórna honum. Sem er í meðallagi gott því ég kann ekkert á það að vera á rannsóknastofu. :-Þ Alls ekkert. Veit ekki í hvernig krukkum sýra á að geymast. Og það eru náttúrulega ekki krukkur. Bikarar. Eða eitthvað.

En ég er búin að bjóða krökkum í mat á föstudaginn. Gaman. Allir, ekki allir, nokkrir, singles krakkar í deildinni minni. Og reyndar eitt par. Þau fá lasagna. Sem ég er búin að elda. Svo mikill myndarskapur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?