27.8.08

Tæki farið af stað

Þetta er svo mikill spenningur hjá mér að ég verð að skrifa eina línu um það. Að tækið mitt er farið af stað. Frá Atlanta og kemur á föstudaginn.

YAY! Eins og maður segir í Ameríku eða bara Jei, eins og maður segir á íslensku.

Útskrift sigling kúrs

Það er svo mikið að gera hjá mér þessa dagana það nær engri átt. Það merkilega er að afkostin aukast í hlutfalli við álagið. Sem er náttúrulega alveg ljómandi gott. Óli er að útskrifast á föstudaginn og við ætlum að vera með brunch sem ég er að fatta núna að ég verð að undirbúa. Hann flytur á sunnudaginn og ég fer í siglingu á þriðjudaginn. Ég er búin að kaupa allskonar tæki og græjur fyrir hana. Aðal græjan er enn á færibandinu í verksmiðjunni, ég er alveg á nálum með að hún komist í tíma. En Joe er sannfærður um að hún verði komin svo ég reyni bara að treysta á það. Síðan er ég aðstoðakennari í svaka flóknum kúrs. Við eigum að mæla blý í mold, kvikasilfur í fiski, arsenic í timbri og skordýraeitur í salati. Þetta er allt mælt í mismunandi tækjum sem eru risastór og ógnvekjandi. Svo þessa dagana er ég að eltast við viðgerðamenn og panta nýtt dót. Þetta er alveg nýtt fyrir mér. Venjulega sit ég bara við skrifborðið mitt og pikka inn á tölvuna. Núna er ég á þeytingi út um allt. Það er bara fínt. Núna er ég að bíða eftir flokki sem ætlar að skoða skrifstofuna mína og síðan fara með mér í kaffi. Sem mér veitir ekki af.

25.8.08

Wisconsin Dells

Er svaka crazy place. En líka fallegt og gott. Við vorum að koma heim úr fjögra daga ferð með tengdó og mág. Mágur minn er kominn á gelgjuna. Ha ha, það er nú aldeilis skemmtilegt tímabil. Við skemmtum okkur ljómandi vel í the Dells. Fórum í vatnsrennibrautargarð, þann stærsta í Bandaríkjunum. Eins og Óli sagði, þá er þetta vatnsrennibrautagarður fyrir menn sem þurfa að fara í vatnsrennibrautagarð. Alvöru. Síðan fórum við á kanó, í gönguferð, sem var meira ég að bjóða mig fram sem hádegismat fyrir flugurnar og grilluðum alvöru amrískar steikur. Alveg súper.

Á leiðinni heim sóttum við Sillu litlu á flugvöllinn og núna bíðum við bara eftir Öldu, Elfari, Valtý og Lexie. Þetta verður alvöru fjölskyldu-reunion. Eða bara fjölskyldu-union.

17.8.08

Kisi

Ég er að passa kött. Hún heitir Sasha. Ég hef miklar áhyggjur af henni því hún virðist ekki borða mikið. Sefur á daginn og er eins og þeytispjald á nóttunni. En kannski er þetta eðlileg hegðun katta. Elínborg og Stefán voru allavegana á því að þetta væri nokkuð eðlilegt. En þau stoppuðu aðeins í Chicago á ferð þeirra þvert um Bandaríkin sem var mjög gaman. Ég gat sýnt þeim Hyde Park og bændamarkaðinn og þau skoðuðu síðan Chicago upp á eigin spýtur.

12.8.08

Húrra fyrir RÚV

Bara örstutt. Langar endilega að lýsa yfir hrifningu minni af Ríkisútvarpinu.

En hversu ótrúlegt er það að ég er búin að vera að raula "when I think of angels.. I think of you" í dag, svona endrum og sinnum. Og núna, opna ég fyrir rás 2 í fyrsta sinn í svona 2 ár. Og hvað er að spila, akkúrat þegar ég næ sambandi? Þetta lag. Sungið af uppáhaldssöngkonu minni henni Eivöru Pálsdóttur. Ha?

Málið er að fyrir mörgum árum studdi rúv mac en síðan hættu þeir því. Settu upp annað kerfi, eitthvað windows spliff. En núna er ég á skrifstofunni að debugga, eitthvað að blístra jólasveinar ganga um gólf og fæ alveg skerandi föðurlandsást beint í hjartað. Þá er svo ágætt að heyra smá rás 2 og ég opna rás 2 síðunna þó svo ég "viti" að það eigi ekki eftir að virka. En nema hvað. Það virkar og akkúrat rokklandskvöld og Óli Palli bara að spila Eivör. Þessi ríkisútvörp. Þau bjarga manni. Mér er núna svo létt. Gott að heyra rödd Óla Palla.

9.8.08

Lummur og hafragrautur

Mér hefur alltaf fundist hafragrautur mjög góður. Í honum verður að vera nógu mikið salt til að maður finni vel bragðið af höfrunum en ekki þannig að hann sé beinlínis saltur. Síðan er náttúrulega sykur ofaná sem bráðnar og ísköld mjólk sem hitnar. Þetta er frekar einfaldur réttur og kannski finnst mér hann bara góður því það var alltaf hafragrautur þegar mamma fór eitthvað út. Það var skemmtilegt þegar hún fór út því þá eldaði pabbi hafragraut og það var alveg sérstök stemmning. Einhvernveginn meira kúl.

Óli er ekki jafn hrifinn af hafragraut og hreinlega neitar að borða hann í kvöldmat. Þannig að þegar hann fer eitthvað út þá er hafragrautur í matinn hjá mér. Eins og núna er hann í New York að leita að íbúð og slaka á með félögum sínum, og því var hafragrautur í kvöldmat í gær.

Annað sem er yndisleg, annað en að fá hafragraut í kvöldmat, það er að fá lummur í hádegismat. Ef hafragrauturinn klárast ekki alveg þá er ekkert betra en að nota hann í lummur daginn eftir. Lummur sem steiktar eru uppúr fullt af smjöri og sykri stráð yfir. Það er alveg sérstakt útlit á lummum. Þær eru fyrir það fyrsta gylltar á litin en það er rönd, meðfram brúninni. Þetta gerist ekki á amerískum pönnukökum. Mér fannst þessi rönd alltaf merkileg hér í den, en viti menn, en viti menn, þetta gerist enn í dag. Þessi rönd bara verður til. Án þess að maður geti neitt gert í því. Sem er náttúrulega bara súper.

Ég fór með bílinn í útblásturspróf í dag. Á leiðinni eru allir bílarnir brunandi áfram á interstatinu og það er eitthvað skrýtið að gerast, menn hægja á sér og svinga hægri vinstri. Haldiði að það hafi ekki verið þriggjasæta sófi á miðri hraðbrautinni. Svaka slysagildra. En ég komst á verkstæðið og hvað? Bíllinn féll. Á prófinu. Alveg agalegt áfall fyrir mig. Verð að reyna að losa mig við þennan bíl. Málið er bara að það er frekar erfitt að búa í Chicago án þess að eiga bíl. Þó svo við notum hann ekki nema kannski einu sinni í viku, þá eru þetta alveg krúsjal ferðir sem farnar eru einu sinni í viku. Ætli ég verði ekki að reyna að hugsa minn gang núna.

8.8.08

Tinna þrítug

Ég átti svo ljómandi gott þrítugsafmæli fyrir nokkrum dögum að ég verð endilega að setja inn nokkrar línur og kannski mynd frá því.

Afmælið mitt byrjaði á því að Óli bauð mér í morgunmat á fínasta bakaríið í bænum. Sívætlu bænum. Þar fékk ég með betri smjörbeyglu og síðan köku, kampavíns-mousse-peru-köku. Þetta var svaka huggulegt og indælt en ég er mikill bakaríis aðdáandi svo ég var himinlifandi. Eins og sést einmitt á þessari mynd.


Eftir morgunverðinn keyrðum við upp í North Bend og klifruðum nokkrar vel valdar fjögra stjörnu brautir. Ég set hérna eina mynd af mér í skóginum á leið að klettunum því það er aðeins erfitt fyrir okkur að taka myndir hvort af öðru að klifra þar sem sá sem er ekki að klifra en gæti tekið mynd á að vera að einbeita sér að því að halda í reipið svo sá sem er að klifra steypist ekki niður á jörðina.En þetta er einmitt baguette sem stendur upp úr bakpokanum mínum því við vorum að sjálfsögðu með voða lúxus hádegisverð með okkur.

Um kvöldið fórum við síðan út að borða með gestgjöfunum okkar, Angie og Justin. Því miður er engin mynd til af því svo ég set í staðin mynd frá því í gærkvöldi þegar við Óli elduðum svaka fínan mat og ég fékk kjól og bakarakörfu í afmælisgjöf. Á matseðlinum voru tvennskonar rauðbeðu salöt, annað með rauðbeðunum, hitt með stönglum og laufum, fiskur með lauk-sinneps chutney og salat. Ostarnir voru tomme og gráðosturinn sem er í laginu eins og súla, búinn til með hvítvíni, man ekki hvað hann heitir, ódýr en svaka góður. Og síðan var vanilluís með berjum í eftirrétt. Vínið var Costa De Oro, 2004.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?