30.6.08

Mamma hans Øystein

hafði stundum pönnukökur í kvöldmatinn.

Einu sinni, endur fyrir löngu, fékk besti vinur lítils hnátuskotts af og til pönnukökur í kvöldmatinn. Það fannst sætu litlu stelpunni svakalega eftirsóknarvert. "Mamma, heldur þú að við gætum kannski haft pönnukökur í kvöldmatinn?" "Ha ha ha", hló mamman, henni fannst þetta svaka sniðugur brandari og anginn litli vissi að það myndu aldrei vera neinar pönnukökur í kvöldmatinn á því heimili.

Árin liðu og stúlkan litla óx og dafnaði. Hún var reyndar alltaf mjög ánægð með matinn sem henni var boðið upp á á sínu æskuheimili nema einu sinni þegar það var fiskur í orly (que?). Það varð úr að hún gifti sig og flutti að heiman og bjó manni sínum gott og ástríkt heimili. Af og til eru pönnukökur í kvöldmatinn.

Í kvöld voru pönnukökur í matinn. Pönnukökur þessar voru gular. Ég hef aldrei séð þannig pönnukökur samt hef ég notað þessa uppskrift árum saman. Eggin, mjólkin og smjörið gerði gæfumuninn. Allt þetta kemur beint frá bóndanum og ekki úr útúrstressuðum hænum og kúm sem fá sprautur daginn út og inn og borða eitthvað jukk sem þeim lýst í raun ekkert á. Nei. Ekki hafa þessar vörur heldur verið leifturhitaðar til að búa til rammgerðar bakteríur heldur kemur mjólkin bara beint úr kúnni og eggin beint úr hænunni. Því lyktar mjólkin eins og fjós og eggjarauðurnar eru eins og glóandi gull.Á þessum myndum má sjá hvað okkur hjónum finnst mismunandi matur spennandi.Í desert er síðan náttúrulega pönnukaka en í þetta skiptið með jarðaberjum, Illinójískum, og súkkulaði og er það sennilega það besta sem ég veit. Ég get ekki annað en brosað út að eyrum og kurrað þegar ég fæ pönnukökur með súkkulaði og berjum. Ég mana einhvern til að minnast á eitthvað sem er betra en það.

Annað frábært við þetta kvöld er það að við náðum að gera skattframtalið.. svona hálfu ári of seint.. en, betra seint en.. jepp.

26.6.08

Óli minn PhD

Jæja nú er ég stolt, og þunn, eiginkona. Óli minn stóð sig með svo mikilli prýði að annað eins hafði ekki sést í langan tíma. Hugsanlega ekki í hundrað ár.

Partýið var líka svaka fínt. Það var kampavín og kynstrin öll af ostum og ávöxtum. Prófessorar, nemendur og smábörn komu saman, skáluðu og göntuðust. Óli sagði brandara.

Í dag er of heitt til að gera nokkurn skapaðan hlut og á morgun eigum við enn eitt brúðkaupsafmælið. Ég hugsa að mér finnist skemmtilegra að eiga brúðkaupsafmæli heldur en bara afmæli. Miklu skemmtilegra að verða sex heldur en þrjátíu. Jæja, ætli ég fari ekki að reyna að gera eitthvað pródúktíft. :-Þ

24.6.08

Múska múska!!!

hrópaði Irina forðum. Þá var mús á skrifstofunni þeirra Óla.

Óli það er mús!!! hrópaði ég rétt í þessu. Já það er satt. Það er mús í eldhúsinu. Hún hljóp undan ísskápnum undir eldavélina. Ætl´ún kunni að elda rattatúí? Mér finnst það svona aðeins óþægileg tilhugsun að það sé mús í eldhúsinu, sérstaklega daginn fyrir svaka fína veislu, en hvað getur maður gert? Óli ætlaði eitthvað að fara að pota undir eldavélina með kústinum en til hvers er það? Hún hleypur bara eitthvert annað. Ég get ekki ímyndað mér annað en hún kunni á eldhúsið miklu betur en við Óli frá hennar sjónarhorni. Svo ég æpti á hann hvað hann væri að gera, hann væri ekki með neitt plan. Ég vona bara að ég geti setið á mér að segja gestunum frá´essu. Ég sem er búin að þrífa allt hátt og lágt.

22.6.08

halló

Jæja. Hvað er að gerast í Chicago þessa dagana?

Við erum að skipuleggja partí. Útskriftar eða reyndar frekar varnar-partí. Óli er að fara að verja doktorsritgerðina sína á miðvikudaginn og þá verður kokteilpartí. Nefndinni er boðið og vinum okkar sem eru í bænum. Ég er búin að standa á haus að þrífa um helgina. Einu skiptin sem ég geri það er fyrir partí eða gesti sem ætla að gista. Það var aðeins of langt síðan við héldum partí síðast. Svaka mikið ryk útum allt. Anyways.

Ég er líka búin að vera að vinna í gögnunum. Búin að skrifa skýrslu. Og senda proffanum. Loksins búin að jafna mig eftir volkið á sjónum. Var eiginlega bara veik af svefnleysi. Nú líður mér betur. Það er svo gott að vera í Chicago, sérstaklega Hyde Park. Hér er svo fallegt. Allt grænt og blómstrandi. Svalirnar mínar eru líka svo gróskulegar. Ég er með tómata, myntu (margar tegundir), basil, dill, lotnarblóm, papriku, steinselju, einhver blóm (morgunfrúr máski), prairie grös og annað sem ég þekki ekki, appelsínutré, sítrónutré og öll stofublómin mín og Emilíu á svölunum. Þetta eru flottustu svalirnar í öllu hverfinu. Mér finnst geðveikt gaman að vera með svona mikið dót á svölunum. Og geta bara farið út og tínt í matinn. Jei. Annars er ég líka orðin meðlimur í Mennonite samfélaginu hérna.. eða þannig, keypti hlut í kú. Hann gefur mér rétt á ógerilsneyddri mjólk og smjöri. Jess. Hlakka ekkert smá til að fá alvöru smjör. Og Jersey mjólk. Jömmí jömmí.

20.6.08

sumar í Chicago

Jess það er komið sumar! Ég er komin úr siglingaferð og það er yndislegt að vera aftur í Chicago. Við Sarah vinkona mín erum með þannig fyrirkomulag að hún ræktar grænmeti og gefur mér, í staðin baka ég brauð og gef henni. Sem er til þess að hér er alltaf ferskt grænmeti og nýbakað brauð. Hversu gott getur lífið orðið?

Ég er líka að læra að nota allskonar grös sem mér hefði ekki dottið í hug að nota eins og rauðbeðu-blöð og hvítlauks-grös. Bæði mjög ljúffengt. Í gær var ribbolita með þessum grösum ásamt káli og baunum. Óli var hrifinn enda var með Viogner með.

Siglingaferðin var svaka mikið stress. Gagnasöfnunin gekk eins og við er að búast að mér skilst, brösulega, en því er ég einmitt að komast að núna þegar ég reyni að skilja gögnin. Það var lítill sem enginn vindur og kokkarnir voru ekki upp á marga fiska, ég svaf ekki mikið útaf organdi smábarni (tæki) sem þurfti stöðuga umönnun svo ég var svona í meðallagi hamingjusöm með þessa ferð. En það var samt yndislegt að vera úti á rúmsjó, vaggandi fram og aftur og horfa á stjörnurnar speglast í sjónum. Og það gerist víst ekki oft á Atlantshafinu.

9.6.08

Hold on

Hversu mikið mál er að vera fararstjóri? Smá mál kannski. Verð að ausa úr skálum fjölbreytilegra tilfinninga í samabandi við eitt atriði tengt því að vera fararstjóri. Og núna ég er að tala um siglinguna. En það eru samskiptin við Omega rútu fyrirtækið. Jæja, ég nenni nú eiginlega ekki að segja alla söguna þar sem hún er löng og ekki nógu spennandi, en ég get gefið samantektina. Og hún er sú að undanfarna daga er konan sem vinnur á rútustöðinni búin að setja mig "on hold" svona 50 sinnum. Óýkt.

Fyrst var ég þreytt á að hlusta á rumsuna sem er spiluð aftur og aftur. Síðan varð ég svaka svekkt í hvert skipti sem hún setti mig on hold. Á endanum öskraði ég á hana "ekki setja mig on hold!!!" en það hjálpaði ekki mikið. Eftir skammvinnt taugaáfall náði ég að vinna úr þessum tilfinningum og núna, þegar ég hringdi til að staðfesta, sure enough, hún setti mig on hold. Í þetta skiptið var ég andlega undirbúin og lét það ekki á mig fá.

Ferðin er öll að púslast saman. Það verður planes, boats and automobiles. Og tækið mitt virkar svaka vel. Jei.

8.6.08

Heitt, sveitt og geðveikt .................

Það er hitabylgja sem þýðir að það er geðveikt heitt. Sem er einmitt ástæða þess að ég er vöknuð núna klukkan rúmlega sjö á sunnudagsmorgni. Expo gekk svaka vel. Ég sýndi bíómynd sem vakti fögnuð því hún var með byrjun, miðkafla og endi. Núna er ég að reyna að læra á tækið mitt. Áður en við siglum af stað. Svaka spennandi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?