26.7.07

Óson

Þessi færsla fjallar um það hvernig óson (O3) hefur áhrif á hitnun jarðar. Ósonið sem um er rætt finnst í neðri lögum lofthjúpsins (troposphere), ekki í háloftunum (stratosphere). Þetta óson verndar jörðina ekki gegn útfjólubláum geislum heldur veldur það alls kyns skaða: öndunarerfiðleikum í borgum, eins og í LA, Beijing og Reykjavík auk þess sem það er gróðurhússlofttegund. Óson er einnig skaðlegt fyrir plöntur, það eyðileggur frumur inni í laufinu og minnkar getu þeirra til að taka upp koldíoxíð. Núna í fyrsta sinn voru menn að rannsaka samband aukins ósons og magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Vísindamennirnir telja að óbeinu áhrifin (aukið óson þýðir að plöntur taka upp minna CO2 sem þýðir að meira verður eftir í andrúmsloftinu sem þýðir að minni varmi sleppi út í geim) séu veigameiri en beinu áhrifin (óson er gróðurhússloftegund sem endurgeislar varma sem er að reyna að sleppa út í geim).

Þessar niðurstöður eru mjög týpískar í hitnun jarðar / veðurfarsbreytingar geiranum. Það kemur yfirleitt í ljós að slæmu áhrifin eru enn verri en talið var í fyrstu.

Góðu fréttirnar eru þær að það er ekki erfitt að eiga við óson. Það lifir ekki í andrúmsloftinu nema kannski í nokkra daga eða vikur, þannig að það eina sem þarf að gera er að leggja bílnum. Labba, hjóla, taka strætó, eða ef menn nenna því ekki, fjárfesta í einhverju litlu tæki sem minnkar útblástur NOx úr bílnum.

Efnisorð:


25.7.07

Fréttirnar

Ég skil ekki af hverju ég er svona hissa, en. Ég var að horfa á fréttirnar, BBC world news. Helmingur fréttanna fjallaði um afleiðingar hitnun jarðarinnar. Evrópa brennur; skógareldar geysa vegna þess hve heitt og þurrt er. Á meðan setja flóð allt á annan endan í Bretlandi og Rússlandi. Þetta eru öfgarnar sem vísindamenn eru búnir að reyna að útskýra að er það sem koma muni.

Maður syndir í sjónum á norðurpólnum til að vekja athygli á hitnun jarðar. Þetta eru fréttirnar sem spáð var fyrir 10 árum. Núna er það bara svo að sérkennilegt veður tekur upp meira og minna allan fréttatímann. Jafnvel þó svo ég sé með nefið ofaní veðurfars rannsóknum allan daginn finnst mér ógnvekjandi að sjá þetta svona "live" á skjánum.

Það sem ég sá á skjánum fer hinsvegar ekki mikið fyrir á vefsíðunni. En ég rakst rétt í þessu á grein á vefsíðunni með yfirskriftinni Ozone has 'strong climate effect'. Þetta er óheppileg yfirskrift að því leyti að flestir eiga eftir að lesa hana en ekki greinina. Síðan á fólk eftir að rugla saman "hitnun jarðar" og "óson-gatið". En þetta eru tvær afleiðingar þess að menn setja lofttegundir í andrúmsloftið í meira magni núna en sögulega hefur verið gert.

Hitnun jarðar er að mestum hluta vegna koldíoxíðs, CO2, sem verður til þegar kol og olía eru brennd. Óson er lofttegund svipuð að því leyti og CO2 að hún er gróðurhúsalofttegund. Hún er til í litlu magni í andrúmsloftinu, nálægt yfirborði jarðar.

Ósongatið er lengst upp í háloftum. Í ósonlaginu. Sem verndar okkur gegn útfjólubláum geislum. Ósonlagið er svo langt uppi að það hefur ekki bein áhrif á gróðurhússáhrifin.

Þessi tvö fyrirbæri eru að mestu óskyld. Það sem tengir þau saman hefur að gera með ský yfir suðurskautslandið sem ég get ekki farið útí núna því ég þarf að hitta Óla á pizzustað en ef áhugi er fyrir hendi á færslu um þær spekulasjónir mun ég með glöðu geði skrifa eina þannig.

Efnisorð:


24.7.07

Næturbrölt

Alveg agalegt að geta ekki sofnað því maður er svo mikið að hugsa. Fór því fram og skrifaði heillanga klausu um mikilvægi menntunar. Kvel ykkur ekki með því að setja hana hingað inn. Síðan kláraði ég að horfa á þættina sem ég sogaðist óvart inn í. Six degrees. Veit ekki hvernig ég get útskýrt af hverju ég horfði á þessa þætti. 13 þætti. Þeir eru ekki sérstaklega skemmtilegir. Þeir fjalla varla um neitt. Þetta er algjör sápuópera. Ég held satt að segja að þeir hafi verið hannaðir til að vera ávanabindandi. Ég er sannfærð um það. Frekar hallærinslegt. Af hverju ekki eyða frekar púðri í að gera skemmtilega þætti frekar en ávanabindandi þætti? Svona er nútíminn: bottom line-ið svaka mikilvægt.

22.7.07

Viðburðarík helgi að vanda

Já, það er ekki lognmollunni fyrir að fara hérna í New York. Á föstudaginn fórum við Sigurdís í Guggenheim safnið og kynntumst formum tómsins. Sér í lagi fannst okkur gaman að sjá hin ýmsu listaverk Roni Horn sem er listakonan sem meðal annars hefur myndað búningsklefa sundhallarinnar. Gaman var líka að sjá listaverk Louise Bourgeois en hennar verk eru það eina sem situr eftir af skyldunámskeiðinu "General Knowlegde" frá Dubai, en líkaði mér sá kúrs tiltölulega lítið vel. Við röltum aðeins við í tískubúðir og ég náði að kaupa mér james-bond-píu-outfit en það er einmitt mikið í tísku hér í borg. Síðan fórum við á besta veitingahúsið í Chelsea, Red Cat. Ég fékk mér skötu (vá hvað hún var geggjuð! - miklu betri en sú sem ég eldaði hérna í frænkugeiminu), Sigurdís fékk silung og ég (!!) valdi ljómandi gott hvítvín sem fór sérstaklega vel með matnum. Þetta var hvítvín frá Vouvray í Loire dalnum. Ég var svaka upp með mér að velja vín, fékk vínsérfræðing veitingastaðsins til að koma og ræða málin og fékk að smakka það. Venjulega er Óli sá sem spyr alla spurninganna og fær að smakka. Ég fékk síðan rabbabara eftirrétt og þetta var bara alveg hrikalega huggulegt. Aumingja Óli var á fundi fram á kvöld (top-secret krísa í vinnunni) en við Sigurdís nutum þessa enn betur fyrir vikið.

Á laugardaginn fórum við í göngutúr um hálfa Manhattan. Við túristuðumst svo mikið að ég get ekki farið að telja það allt upp. Gengum yfir Brooklynbrúnna og enduðum á Times Square sem er alveg hrikalegur staður. Skrýtið með svona túrista staði. Hollywood er svipað dæmi. Fólk vill sjá bara til að sjá. Bara til að geta sagt að maður hafi séð. Alveg agalegt. Jæja, kannski ekki svo að það réttlæti að sjúga humöret úr þessari færslu.

Sunnudagurinn. Við Óli skokkuðum í 30 stiga hita og sól þangað til það leið næstum því yfir mig. Hann fór í vinnunna og ég vann upp slugsið á föstudaginn. Í kvöldmatinn hittumst við á stað sem fær 21 í mat og núll í atmosphere. Hann var mjög góður. Ég fékk mér svaka gott pasta og Óli fékk sér smokkfiska-blek-pasta. (Þetta er ekki prentvilla)

Annað sem gerðist þessa helgi var að ég fattaði að ég hafði látið senda Harry til Chicago. Halló. Hversu viðutan getur nokkur manneskja verið?????

18.7.07

Æði fyrir risotto

Það er ekkert smá gaman að eiga svona góða matreiðslubók og geta uppgötvað nýjar stefnur í hverri viku. Þessi vika er bara öll um risotto. Hvernig er best að lýsa risotto? Aromatískt. Jamm. Það er einhvernveginn svo mikið af svakalega góðu, jafnframt mildu bragði í risotto. Aðalatriðið er náttúrulega soðið. Þetta er eitthvað svo heilnæmur og jarðbundinn réttur. Í kvöld eldaði ég sveppa risotto. Bjó fyrst til sveppa soð. Úr porcini og allskonar grænmeti. Í risottoinu var portabella og maður fékk svona tilfinningu eins og maður væri kominn útí sveit. Það minnti mig á það þegar við Óli vorum í hjólreiðatúr um Danmörku. Lyktin af skógi eftir að það hefur rignt, það var bragðið. Þvílík sæla.

16.7.07

Blown away

Það er dásamlegt þetta líf! Nammi namm. Á föstudaginn var ég svo lukkuleg að fá afmælis-frænku mína í heimsókn, hana Önnu Pönnu. Í tilefni þess höfðum við svaka sjávarréttarhátíð með kræklingum og skötu, spjölluðum um heima og geima, rifjuðum upp ættfræði eins og von er vísa þegar 3 frænkur koma saman og höfðum það mjög gleðilegt.

Laugardaginn byrjuðum við Óli á því að fá okkur franskan hádegismorgunverð á le petit bistro og tókum síðan lest upp alla Manhattan til the Cloisters sem trónir þar á fjallstindi. Það var bara eins og að vera komin upp í sveit, graníthellur og stór tré skyggðu á skýjakljúfana. Síðan komum við heim og ég eldaði mitt fyrsta risotto. Það var nú ekkert smá gaman.

Á sunnudaginn héldum við síðan loksins í the outer boroughs, en þangað höfum við ætlað að kíkja lengi. Við hittum Armeníska vinkonu Lilju í Williamsburg, fengum okkur brunch og röltum síðan um, kíktum á skran hjá götusölunum og á list í galleríunum. Síðan héldum við í Harlem, nánar til tekið á 555 Edgecombe Ave. íbúð 3F þar sem Frú Marjorie Eliot býr og heldur jazz tónleika í íbúðinni sinni. Þvílík upplifun. Ég gæti ekki gert því góð skil hversu ótrúlegt og yndislegt það var á þessum tónleikum. Þið verðið bara að ýta á linkinn. Og kíkja á ljóðið líka. Það er alveg akkúrat.

11.7.07

Ojó stækkar

Trúið þið því að við kölluðum Orra Ojó! Ha ha, það er nú svolítið fyndið. Og núna er hann orðinn 23 ára gamall. Hann á afmæli í dag alveg eins og Hvalfjarðargöngin.

Annars er svaka hugglegt hérna í New York í dag. Lilja frænka er í heimsókn. Við byrjuðum daginn á því að labba á franskan morgunverðarstað sem við Óli sannreyndum um helgina að væri svaka góður morgunverðarstaður. Í morgun sannreyndum við Lilja að þetta væri franskur veitingastaður, hann var lokaður þegar við komum. Klukkan var þó orðin átta. Við gerðum nú bara gott úr því og náðum í bakkelsi í bakaríið og höfðum dýrindis morgunverð hérna heima.

8.7.07

Harry

Harry er að koma. Og ég var að panta hann á netinu. Það er um að gera því það er helmings afsláttur ef maður pantar áður en hún kemur í búðir og ekki mikil óvissa um hvort ég ætli að kaupa bókina. Vá hvað ég er spennt. Jei. Óli er svaka spenntur í brute wars, ef einhver veit hvað það er. Annars er ég með hálfgerðan móral yfir því að fordæma heila kynslóð á blogginu mínu. Það er náttúrulega svolítið barnalegt að benda svona á einn hóp og lýsa því yfir að hann sé vondi kallinn. Betra er að líta í eigin barm og spyrja hvað maður sjálfur getur gert.

6.7.07

Fiskiæði

Hérna á Manhattan á fólk ekki nóg af peningum, það á of mikið af þeim. Hér eru allar matvöruverslanir einsog nýkaup, nei það er ekki rétt, hvað heitir sælkerabúðin á Skólavörðustígnum? Sælkerabúðin kannski? Í matvöruverslunum á Manhattan er aðallega hægt að kaupa ólífumauk, þistilhjörtu, illy kaffi og hundrað dollara rauðvínsedik. En ég er ekkert að kvarta, það hefur lengi aðeins verið draumur hjá mér að fá illy kaffi á hverjum morgni. Í gær keypti Óli í kvöldmatinn. Það er nú ekki að spyrja að því. Ostrur í forrétt og gufusoðin skata í aðalrétt.

Þetta er í annað sinn sem við (Óli) eldum skötu. Ferska skötu. Hún er með bestu fiskum sem til er. Ég skil ekki Íslendinga að halda áfram að skemma skötuna þannig að hún verður óæt fyrir fólk sem ekki er búið að fá ára-tuga þjálfun í að endurforrita bragðlaukana. Hérmeð býð ég hverjum sem koma vill í ferska skötuveislu á Þorláksmessu. Staðsetning auglýst síðar. Halldór Laxness gerði grín að Íslendingum fyrir að hafa hvorki veitt fisk né fugl í allar þessar aldir, það eins sem það vildi sjá var rollan, hann skildi ekki hversu heimskt fólk gat verið. Mér finnst þetta vera svipað. Í dag eru til frysti-togarar, skápar, kælar og ker, en samt sem áður förum við svona með fiskinn og afsökum okkur með orðum eins og arfleifð, hefð, siðir, gamalt og gott. Gott fólk, það eru kannski 40 ár síðan almenningur byrjaði að borða kæsta skötu. Þessi hefð er álíka gömul og kynslóðin sem hugsar ekki um annað en jeppa, fjórhjól, flísalagt baðherbergi með sjónvarp í sturtuklefanum og heimsborgar-ferðir. Hún er líka álíka gáfuleg.

Vá, ég hafði enga hugmynd að ég væri svona mikið á móti mekkanókynslóðinni. En að mínum dómi er það þessi kynslóð sem er að gera útaf við Ísland. Kaupa kaupa kaupa drasl og pick up trukka, til að sýna að það hafi staðið sig í lífinu. Jah, það að þetta lið á núna meiri peninga en er heilsusamlegt, það er bara afleiðing af tvennu: virkjanaálvera samsteypunni og 14% fyrirtækjaskatti. Fólk vinnur bara sína vinnu og fær borgað. Það er ekkert að gera nein afrek. Af hverju setur það ekki peningana inn í banka og lifir modest lífi? Af hverju er það svo heimskt að hlaða utaná sig allskonar aukahlutum haldandi að það muni færa því hamingju og virðingu? Ég skil það ekki og ég dauðskammast mín fyrir það.

3.7.07

Góðan daginn Ameríka!

Ég er svona smám saman að verða bandarísk (í þykjustunni). Byrjaði daginn í dag á því að horfa á svona morgun-frétta-þátt. Var með þrjá Good morning America þætti sem ég fletti á milli þegar auglýsingar komu. Og hvað lærði ég? Jah, í fyrsta lagi að forseti Bush heldur að hann sé réttarkerfi og náðar vin sinn sem er búið að dæma í tveggja ára fangelsi. Síðan er búið að finna upp nýtt dót sem maður getur borðað: superfood. Það eru t.d. maukaðir ávextir sem geymast í 6 mánuði í búrinu (oj) og eitthvað fleira sem mér leist ekki á. Síðan var farið yfir það í hverju maður má vera á þjóðhátíðardeginum, sem er eimitt á morgun. Það er nú alveg ótrúlegt, en bandaríkjamenn eru hvattir til að vera í íslensku fánalitunum! Ha ha, góður brandari. Fyrir fjögra ára börn. Já, síðan voru tilkynningar um allt það hræðilega sem gerðist í nótt: fólk skotið, stungið og brennt inni. Ég hugsa að ég horfi ekki á svona þátt aftur, betra er að hlusta á NPR, það er bara svo svekkjandi hversu léleg móttakan er. Ég er búin að beygja herðatré og krækja því í græjurnar en það hjálpar ekki.

1.7.07

Nammi namm

Helgarnar hérna í New York eru tvímælalaust þær huggulegustu. Þá fæ ég að sjá eiginmanninn minn sem gleður mig mikið. Þá slaka ég líka mikið á því maðurinn er uppgefinn og ég vil bara chilla með honum. Við búum við hliðiná byggingu sem var einu sinni bakarí: Chelsea Market. Þessi bygging nær yfir heila "block". Hún er milli 9. og 10. breiðgötu og 15. og 16. stræti. Sem er svolítið stórt. Árið 1890 sameinuðust 8 bakarí í "New York Biscuit Company" og bökuðu þarna kex eins og Oreo og Saltines (svipað og Ritz-kex). Það flutti síðan út um miðja síðustu öld og nú er þarna markaður. Það er slátrari, fisksali, grænmetis og ávaxtasali, ítlaskur markaður og 4 eða 5 bakarí. Eitt þeirra, Amy´s bakery, bakar bestu brauðin í bænum og þar kaupi ég baguette fyrir okkur í morgunmat. Annað sérhæfir sig í "cupcakes" og þar kaupi ég króísant, helst með möndlum. Á ítalska markaðnum kaupi ég allskonar og þar á meðal nutella, influtt, sem er miklu betra en bandarískt nutella. Svo það er augljóst að helgarnar, þá sérstaklega morgunverðurinn, geta ekki verið annað en súper. Í kvöld ætla ég til fisksalans og kaupa kræklinga. Ég er nefnilega nýbúin að uppgötva kræklinga og við erum búin að sannreyna það að nýja fiskibókin hans Óla klikkar ekki. Mmmm. Ég hugsa að kvöldmaturinn verði jafn gómsætur, ef ekki aðeins meira, en morgunmaturinn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?