28.2.07

Þetta er að koma

Tímarnir breytast, fólk breytist. Mamma mín drakk kaffi með mjólk í 30 ár. Síðan fór hún til Parísar og núna drekkur hún kaffi svart. Ég var einu sinni alltaf með heilar tennur. Núna er ég með 6 skemmdar. Í morgun var ég sátt við lífið og tilveruna. Núna er ég alveg miður mín.

Það þýðir nú ekki mikið að vera miður sín. Eins og Margrét, mamma hennar Siggúar sagði: "Sigrún mín, þú verður að sættast við hversdagsleikann." Mér finnst þetta svo góður sannleikur. Skrýtið hvað maður áttar sig oft ekki á einföldustu hlutum. Ég gleymi því oft að það er ekki hægt að hafa alltaf skemmtilegt eða áhugavert.

Núna ætla ég að vera sátt við að vera dofin í andlitinu og að vera ekki að gera neitt skemmtilegt vegna þess að Elliot vinur minn rifjaði þetta ljóð upp fyrir mig eftir A.R. Ammons,

Weathering

A day without rain is like
a day without sunshine.

27.2.07

Vinkona úr fortíðinni

Vinkona mín síðan ég var 13 og 14 ára úti í Singapúr, Ana Lúcia, hafði samband við mig í gærmorgun. Hún sendi mér email um það að hún væri búin að leita að mér hátt og lágt og ef ég væri ég, endilega skrifa til baka. Nú ég er náttúrulega ég svo ég skrifaði strax til baka. Svaka gaman að heyra frá þér, hvað er að gerast, bla bla bla. Og bara, ekkert svar. Þessi stelpa hafði samband við mig fyrir svona 7 til 8 árum síðan og það var sama sagan. Hún svaraði ekki bréfunum mínum. Ég skrifa heillangt bréf um hvað ég er að fást við því það er nú svona það fyrsta sem maður segir, til að 'catch up'. Eða það hélt ég. Nú er ég farin að halda að ég skrifa alltaf svo leiðinleg bréf að hún bara nennir ekki að svara þeim. Hvað gæti verið í gangi? Ég bara skil þetta ekki.

23.2.07

Rigning

Enn ein ástæða fyrir Íslendinga til að taka umhverfismál alvarlega.

Það er vitað mál að fólki er nokk sama um umhverfið nema það hafi bein áhrif á hagsmuni þeirra. Þetta sá ég glöggt í sumar þegar ég var að tala við hóp fólks um hitnun jarðar. Ég benti þeim á að afleiðingar hitnunar jarðar væru meðal annars þær að jöklar bráðna og eru um það bil að hverfa. Þau kipptu sér nú ekki mikið upp við að heyra það því 'það mun nú ekki gerast á okkar æviskeiði'. Ég sagði þeim að það væru kannski 20-30 ár í það og þá var þetta allt í einu orðið alvöru vandamál.

Jæja, nú get ég sagt ykkur að ég var á fyrirlestri rétt í þessu þar sem fram komu spár um breytt rigningafar. Jább, rétt giskað. Ísland mun verða vart við aukningu í þeim efnum með áframhaldandi hitnun.

Það var félagi félaga minna, Árdísar og Dónalds, hann Paul O'Gorman sem sagði frá rannsóknum sínum og líkönum sem hann hefur verið að þróa. Einstaklega áhugavert.

Þannig að þeim sem gaman hafa af því að flatmaga á grasinu á sumrin eða spranga um fjöll í góðu veðri er bent á þann kost að hjóla í vinnuna til að leggja sitt af mörkum.

Efnisorð:


22.2.07

Broomball

Við erum komin í úrslit! Unnum leikinn í gær og í kvöld er úrslitaleikurinn. Af 50 liðum eða svo, þá erum við komin í úrslit!! Ég hef aldrei verið hluti af íþróttaliði sem hefur komist svona langt. Þetta er ótrúlega spennandi fyrir mig. Ef við vinnum þá bæði vinnum við og fáum bol! Vinningsbol.

21.2.07

Nýr dagur ný bjartsýni

Eins og glöggir lesendur tóku hugsanlega eftir var ekki bjart yfir mér í gær. Ástæðan fyrir því var að hlutirnir gengu ekki upp. Ég var að reikna fram og til baka með agnir sem urðu til, sukku, leystyst upp og urðu til á ný og það var bara ekki að ganga. Þannig að ég gChataði manninn minn um að fara heim. Við fengum hrísgrjón með instant indversku mauki (mjög fljótlegt) í kvöldmatinn og héldum síðan á skautasvellið í broomball. Það gekk nú ekki betur en svo að Óli minn dúndraðist á vegg og slasaði sig en ég náði að halda mig á tvem fótum, slasaði mig ekki og við unnum! Svo núna erum við komin í fjögra liða úrslit. En það dugði samt ekki alveg til að lyfta brúnunum mínum. Ég var alltaf að hugsa um þetta vandamál sem virðist svo einfalt en gengur ekki upp. Þegar við komum heim horfði ég á myndina Imaginary Heroes með Sigourney Weaver. Það er átakanleg saga fjölskyldu sem leysist upp í rugl þegar eitt barnið fyrirfer sér. Það þurfti heilmikla þrautsegju til að halda sér við þessa mynd framan af en hún vann á og mér fannst hún bara nokkuð góð þó svo að ég mæli nú ekkert sérstaklega með henni. Allavegana, í skólann arkaði ég í morgun kvíðandi fyrir því að hitta David og segja honum að ég skildi ekki upp né niður í þessum tölum. Hann er á skrifstofunni sinni, ég fer inn að spjalla við hann og. Það gengur bara svona dúndrandi vel. Við reiknum þetta í sameiningu og komumst að einni niðurstöðu og síðan hvaða pappíra ég get lesið til að fatta hitt. Svaka léttir og ég er kát á ný. Jess. Hann sagði líka að það væri alveg óþarfi að vera eitthvað upset yfir því að hlutirnir gengu ekki upp. Þetta væri vinnan okkar að finna útúr svona hlutum. Það gæti líka vel verið að vísindamaðurinn sem ég er að vitna í hafi ekki rétt fyrir sér. Um að gera að reyna að vinna sig í gegnum þetta hægt og rólega.

20.2.07

Annað blogg

Mig dreymdi að ég væri með annað blogg og þegar ég kíkti á það voru 13 komment.

Það sem ég er að vinna í núna gengur ekki boffs. Tölurnar stemma ekki. Síðan er ég með hár á hökunni. Það er ömurlegt. Ég veit ekki hvað ég vil. Stundum er maður bara ekki í góðu skapi.

15.2.07

Fraktalar...


eða skilaboð úr framtíðinni??? Hversu ótrúleg er þessi mynd?? Ég veit hvað þetta þýðir en veist þú það?? Eða, öllu mikilvægara, veist þú hvert hlutverk þitt í lífinu er?

Ég kemst ekki yfir það hversu geðveikt þetta er.

14.2.07

Hírós

Rétt upp hendi ef þú fílar þessa þætti Í BOTN!! Vá, við Óli horfðum á fyrsta þáttinn í gær og ég var hooked. Er núna búin að horfa á 11., 12. og 13. Í einni bunu og var að fara að smella á 14. en ákvað að blogga fyrst um hvað þessir þættir eru súper. Uppáhaldskarakterinn minn er tvímælalaust Hiro.

Óli minn flaug til NY í dag og það varð til þess að ég fékk tv-dinner (spínat-lasagna fram yfir dagsetninguna hitað í örbylgju - ekki ýkt) sem ég borðaði einmitt fyrir framan sjónvarpið/tölvuna. Alveg handalaus án Óla míns.

Í Chicago er ennþá kalt og við erum farin að finna fyrir eldsneytisskortinum. Hitastigið í íbúðinni okkar fer ekki mikið yfir 19 gráður, rokkar svona milli 16 og 19C. Ekki nógu gott en mér finnst svo leiðinlegt að kvarta að frekar sit ég eins og bedúínakona hulin teppi. Bara smá rifa fyrir augun. Til að horfa á heroes. Chuus!

12.2.07

Veðrið

Orri bróðir minn heldur að hann geti bara pantað blogg færslur um hin og þessi málefni. Það er ekki og því til stuðnings skrifa ég hér færslu um veðrið.

Veðrið hefur skánað. Það var kalt en núna er hlýtt. Í gærmorgun fór ég út á svalir til að hengja út þvottinn og tjáði Óla að það væri "bara hlýtt og gott úti". Við flettum þá hitastiginu upp á netinu og kom í ljós að það var -8C. Miðað við -20C var það mjög notalegt hitastig. En núna er hann kominn upp í -1C og snjóar. Veðurfregnir verða næst lesnar eftir 1 til 2 vikur.

8.2.07

Svakalega svekkjandi

Er búin að vera í samskiptum við samstarfsmann minn á vesturströndinni og vinna heilmikið í því verkefni upp á síðkastið. Búin að fínkemba kóðann og spá allt of mikið í breytum og tölvuspiffi. Hann segir að allt líti svaka vel út en ég sé ekki búin að breyta einhverju einu. Þá ætti þetta bara að virka. Ég svo spennt að ég get ekki setið kjur meðan ég breyti þessu. Og hvað? Virkar ekki neitt. Urghh.

Hvernig viðmót á maður að vera með þegar svona gerist. Kannski taka hana Aliya til fyrirmyndar og "dust my self up and try again"? Ég ætti sennilega að slökkva á SigurRós. Það er mjög gott fyrir sálina að blogga. Maður sér hlutina í betra ljósi þegar þeir eru komnir á blað/skjá. Bara fyrir tvemur mínútum var ég alveg niðri í sjálfsvorkunardalnum. En núna hljómar Björk í græjunum, syngjandi um að ef ég kvarta einu sinni enn mun hún koma með her af sér.

Ég ætti að spá aðeins meira í þessu vandamáli því ég er síðan að fara að versla í matinn allskonar góðgæti í matarboð morgundagsins. Tilvonandi brúðhjón eru að koma í mat til okkar og þá verður nú aldeilis að bjóða upp á eitthvað gllæsilegt. Jei.

7.2.07

Eins og sagt er í Ameríku

I rest my case

6.2.07

Wall Street Journal

Er dagblaðið sem við erum áskrifendur að þessa stundina. Við vorum með New York Times en nú erum við með WSJ. Ég er ekki nógu ánægð með þetta dagblað. Fyrir það fyrsta er það með fokkt-öpp skoðanir. Það er nóg til að eyðileggja fyrir manni daginn að lesa op-ed síðuna. Í öðru lagi eru 95% greinanna um fjármál, vísitölur, fyrirtæki, CEO's, viðmiðunarbil, reglugerðir, blahhh. Meira að segja veitingahúsaumfjöllunin takmarkast að skipulagi veitingastaðsins og hvar hvaða ríkur og frægur gaur situr. Ljósi punkturinn er að þeir setja alltaf eina grein fyrir makann. Í gær var grein um aðgerðir í Kína tengdum hreinsun fyrir ólympíuleikana. Þessi hreinsun var af tungumálatoga og fer þannig fram að fólk sem kann ensku, vel, fer útum allt og finnur skilti sem á stendur eitthvað furðulegt eins og Show Mercy to the Slender Grass. Í dag var grein um hversu miklu sálarangri evite þjónustan veldur sumu fólki. Ég er alveg hissa á því hversu vinsælt og virt þetta dagblað er miðað við hversu hrútleiðinlegt(95%) og hrokafullt það er.

Efnisorð:


Kalt kalt kalt

Undanfarna daga er búið að vera svo kalt að því verður ekki lýst með orðum. Það er svo kalt að maður fær illt í andlitið við það að labba úti. Á miðri leið í skólann stoppa ég í einhverri byggingu til að láta mig þiðna. Þetta er náttúrulega útí hött. En nú er byrjað að snjóa og það bendir til þess að skil séu að færast yfir og að hlýrra loft sé handan við þau. Þannig að á morgun ætti að vera hlýrra. Guði sé lof.

Superbowl Sunday var núna á sunnudaginn. Við fórum í superbowl partí til að horfa á leikinn. Þetta er sko amerískur fótbolti. Chicago Bears komust í úrslit en það hafði ekki gerst í 25 ár svo það var mikil hamingja í sambandi við það. Þeir byrjuðu vel, skoruðu á fyrstu mínútu. Síðan skoruðu the Colts, síðan Bears aftur og þá Colts. Dúndur spenna og alltaf voða sniðugar auglýsingar inná milli. En þá fór að halla undan fæti hjá Björnunum og ég hugsa að þeir hafi ekki skorað eftir það. Prins steig á svið í hálfleik með tvíburasystrum. Ég hafði ekkert sérstaklega gaman að þessu verð ég að viðurkenna. Leikurinn stendur í klukkutíma en þeir eru í 4 að spila því það er svo mikið verið að stoppa hann. Það er greinilegt að ég drakk ekki nógu mikinn bjór.

4.2.07

Þorrablót 2007 Chicago

Við Óli hættum okkur lengst út í myrkustu úthverfi til að sýna okkur og sjá aðra. Það var rífandi snilld. Við fengum góðan mat, unnum í raffelinu og ég kynntist strák. Hann heitir Peter og mamma hans heitir Amanda. Þau eru ekki af íslensku bergi brotnu heldur komu á þorrablótið til að Peter gæti spjallað á íslensku við Íslendinga. Peter hefur komið í alla helstu fjölmiðla á Íslandi vegna þess að hann er búinn að læra íslensku upp á eigin spýtur í um það bil ár og talar hana snuðrulaust (flawlessly). Hann er ótrúlegur. Ég þurfti að hugsa mig tvisvar um þegar hann spurði mig út í atriði eins og hvort rétt væri að segja "mér þykir íslenskar barnabækur góðar" eða "mér þykja íslenskar barnabækur góðar".

Hljómsveitin var svaka góð. Kórinn líka. Ég var líka í kórnum. Við sungum á sprengisandi og önnur íslensk lög. Við hefðum átt að syngja nú er frost á fróni því þótt ég sé ekki viss um hvort það sé rétt þá er rétt að í Chicago frýs í æðum blóð. Hér eru 22 gráða frost. Klikk kalt. Eins gott að bangsarnir eru að spila í Míamí. Meira um það á morgun.

1.2.07

Hugleiðingar um lífið og tilveruna

Mmm, nenni ekki að vera í svona heimspekilegum pælingum. Ætla frekar að njóta létt-brenndu sætu kartöflunnar með geitaostsins... Dó og fór til himna. (Þetta er svona máltæki hérna í am.)

Geitaostur passar reyndar ekkert brjálæðislega með sætri kartöflu en. Þegar maður er sjúkur í geitaost. Þá passar hann með hverju sem er. Ohhh.

Ég var að reyna að skilja hvað er svona gott við geitaost og þetta eru brögðin sem ég greindi: Súrt, salt, þurrt, sveita-geita-Crozes-Hermitage. Ég get ekki lýst þurru bragði, kannski á það meira um konsistensinn. Þegar maður fær bita af geita osti er það fyrsta sem maður tekur eftir að hann er ekki djúsi, rjómakenndur eða fituríkur eins og hvítmygluostar eða gouda, heldur þurr og eitthvað vantar. En síðan. Eftir smá stund. Alveg himneskur. Verður betri og betri með hverri sekúndu þar til hann er kominn ofan í maga. Crozes-Hermitage er vínhérað held ég. Allavegana þá get ég ekki haft gaman af vínunum þaðan því þau minna bara of mikið á geita rass. Afhverju er hann þá svona ómótstæðilegur? Þetta er ráðgáta sem er ókljáð. Allar hugmyndir vel þegnar.

Vá hvað ég ætla að vinna í því að verða mér út um geit þegar heimurinn verður ekki lengur eins og við eigum að venjast. Þá ætla ég að rækta hveiti og grasker, sætar kartöflur og vera með geitur. Og kindur. Þetta er það sem ég myndi taka með í örkina. Hvers vegna ætli Nói hafi ekki tekið með sér neinn frum-framleiðanda eins og hveiti? Vissi hann ekki að þeir eru aðal? Jæja. Skora á ykkur að baka sætar kartöflur. 375F í svona klukkutíma. Gott smjör og smá dash af kardimommu oná.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?